,,Já - ÞETTA er málið"

Mér hefur verið tíðrætt um breytingar en hluti af starfi mínu sem ráðgjafi snýr að því að hjálpa fólki að takast á við breytingar. En við erum ekki alltaf tilbúin til að breyta þrátt fyrir að við séum tilbúin til að leita eftir stuðningi. Þarna skiptir öllu máli hvernig okkur líður með okkur sjálf og hvað við teljum okkur geta gert. Hvað mundi ég sem manneskja ,,græða“ á þessum breytingum, því það sem hentar einum þarf ekki að henta þeim næsta. Svo er þetta kannski ekki hárrétti tíminn (hann kemur sjaldan upp í hendurnar á okkur) og við viljum sanka að okkur þekkingu og stuðning áður en við tökumst á við að breyta.

Stundum getum við tekist á við breytingar án fyrirvara og þá aðallega vegna þess að við finnum í hjarta okkar að þetta er það rétta í stöðunni. Við fáum svona ,,ÞETTA er málið“ tilfinningu og það er ekki efi í hjarta okkar að ÞETTA er það sem við eigum að gera. En ef við þurfum að breyta einhverju af því að við teljum það vera það rétta en hjartað er ekki á sama máli – verðum við að æfa okkur og endurtaka – oft. Þá þurfum við að hafa meira fyrir hlutunum og vera mjög einbeitt í þeim skrefum.

Það er eins og það sé órjúfanlegur hluti af mannlegu eðli að dæma aðra. Þá er okkur tíðrætt um af hverju AÐRIR breyti ekki lífi sínu til betri vegar, já á sama hátt og maður sjálfur. Hversu oft hefur maður ekki sett fram eitthvað vanhugsað um einstaklinga af því að þeir lifa lífi sínu á einhvern hátt sem er manni sjálfum á móti skapi. Svo kemst maður jafnvel að einhverju síðar sem útskýrir stöðu viðkomandi,  sem gerir það að verkum að maður fyllist af skömm yfir fyrri dómhörku.

Allir eiga sína sögu og mikilvægt að ætla ekki öllum að vera eins og maður er sjálfur. Um leið og við tileinkum okkur þessi viðhorf breytist sýn mann á samferðamenn okkar því við áttum okkur á því að við getum ekki sett okkur fullkomlega í spor einhvers nema við höfum verið í skónum þeirra. Engu að síður er mikilvægt að bera virðingu fyrir fólki á þeim stað sem það er en ekki senda út þau skilaboð að viðkomandi eigi ekki skilið virðingu nema að hann lifi því lífi sem OKKUR finnst það eina rétta. Við köstum fram setningum eins og ,,aldrei mundi ég gera svona“ eða ,,hugsa sér, maður í hans stöðu“ og gerum því ráð fyrir að breyskleika sé úthlutað eftir stétt og stöðu fólks.

Mundu að þegar þér finnst að einhver eigi að breyta einhverju þá gerist það yfirleitt ekki fyrr en sú manneskja finnur það sjálf í hjarta sínu. Sá sem vill breytinga verður að eigna sér þær sjálfur og finna að hann vilji og geti breyst. Það er einmitt hægt að ýta manneskju í þveröfuga átt með því að vera troða inn á hana breytingum sem ÞÉR finnst að hún eigi að gera á lífi sínu. Það skiptir nefnilega máli fyrir alla að finna þetta ,,ÞETTA er málið“ augnablik og átta sig á því hvernig má hagnast á breytingunum.

Hvet þig sem ert að lesa þetta að einbeita þér að þeim breytingum sem þú vilt sjá í lífi þínu. Það hefur mun meiri áhrif á aðra að sjá það sem við gerum en heyra það sem okkur langar til að gera. Vertu sú breyting sem þú vilt sjá og margt annað gæti breyst í kjölfarið. En tilgangurinn þinn verður að vera fyrir þig – annars ertu að breyta til að hafa áhrif á aðra og þá ertu strax farin að skilyrða. Lífið breytist ekki þegar allir aðrir breytast – lífið breytist þegar þú viðurkennir hvernig lífi þú vilt lifa, hvernig manneskja þú vilt vera og hefur kjark til að taka skrefin í átt að því lífi.

Vona að einhver sem les þennan pistil upplifi ,,já ÞETTA er málið“ tilfinninguna einmitt núna :-)
Kærleikskveðja

Anna Lóa