Ísjakinn

Ég tel mig hafi gott innsæi og er mjög fljót að ákveða hvort mér líkar við manneskju eða ekki. En þetta er ekki óbrigðult frekar en annað í fari mínu, því aðstæður mínar og dagsform hafa áhrif á hvernig ég er að lesa í umhverfið. Viðmót mitt hefur áhrif á aðra og svo öfugt en samt er ég enn að lenda í því að ætla mér að ,,dæma“ manneskju án þess að þekkja hana nógu vel. Stundum er það út frá einhverju sem ég hef heyrt, eða það sem ég tel mig skynja og þá er ég algjörlega búin að slökkva á rökhugsuninni og held að ratarinn minn sé algjörlega pottþéttur.

En hvað gerist oftar en ekki - jú ég fæ tækifæri til að kynnast manneskjunni síðar á ævinni og þá kemur bara í ljós að um eðal eintak er að ræða. Málið er að þetta er alveg eins og með ísjakann, við sjáum bara toppinn á honum, sjáum aðeins hluta af stóru myndinni.

Við gleymum oft hvað er fyrir innan umbúðirnar - hvað er í raun í gangi í lífi fólks. Hvað vitum við hvað er í gangi hjá fólki yfirleitt og af hverju erum við svona gjörn á að dæma eftir útliti, stöðu, peningum, þjóðerni eða félagslegri stöðu? Stundum dæmum við bara út frá almannarómi og ,,vitum" allt um viðkomandi út frá slúðri og vanþekkingu. Við eigum líka til að nota setningar eins og ,,þetta" fólk eða ,,þessir" einstaklingar, sem er gildishlaðið í sjálfu sér og oftar en mig langar að muna hef ég t.d. heyrt ,,þessir Suðurnesjamenn".

Það er vandmeðfarið að búa í litlu samfélagi. Þegar áföll dynja yfir snúum við bökum saman, styðjum og styrkjum og erum til staðar fyrir hvort annað. Þetta getur snúist upp í andhverfu sína þegar fólk lendir á erfiðum krossgötum í lífinu sem geta verið margs konar en eru fyrst og fremst til vitnis um að við erum mannleg og fáum öll okkar verkefni að fást við, hvað sem líður stöðu, menntun, félagslegum aðstæðum eða kyni.

Næst þegar þú mætir manneskju sem þú ætlar jafnvel að dæma ,,sem eina af þeim“ - hugsaðu þá um ísjakann. Það ætla ég að gera.

Kærleikskveðja
Anna Lóa

Mynd: pixabay.com