"I will be found out"

Vinur minn fór á námskeið hjá Tony Robbins og sagði að ein setning hefði verið sérstaklega minnisstæð í lokin en hún var ,,I will be found out“. Þar er Tony Robbins að vísa í þann ótta okkar að samferðafólk okkar í lífinu fatti hver við erum í raun og veru, já hulunni verði svipt af okkur og þá komi sannleikurinn í ljós. Innra með okkur flestum sé sú vonda tilfinning að ef fólk fattar hver maður er í raun og veru þá sé hætta á falleinkunn og höfnun í kjölfarið.

Þetta á ekki síst við í ástarsamböndum því þegar við opnum hjarta okkar erum við á sama tíma að opna fyrir gamlar tilfinningar þar sem gömul særindi og ótti koma upp á yfirborðið og varnarmúrarnir okkar rísa upp á ógnarhraða. Varnarmúrar sem voru okkur einu sinni nauðsynlegir til að komast af gera lítið annað en að bægja burt þeirri viðurkenningu og trausti sem innileiki og ást felur í sér. Ef við tökum ekki niður varnarmúrana og afvopnum okkur förum við á mis við að vita hvort við erum ástar verð þrátt fyrir ófullkomleika okkar. Áhættan borgar sig alltaf og eykur líkur á innilegra sambandi og því mikilvægt að spyrja sig: hvað er það í rauninni sem er hægt að dæma mig fyrir? Hvaða atriði eða eiginleikar í fari mínu eru ógeðfelld eða fráhrindandi? Oftast er ótti okkar ekki á rökum reistur og í versta falli heimskulegur og stór ýktur og á engan hátt niðrandi fyrir okkur sjálf.

Hugsunin ,,I will be found out“ byggist yfirleitt á órökréttum hugmyndum um okkur sjálf, er okkur oftar en ekki til trafala og rænir okkur heilbrigðum tengslum við annað fólk. Manneskjan er tengslavera og þrátt fyrir að tengsl geti verið flókin, erfið og sársaukafull eru þau besta leiðin til að læra um okkur sjálf og aðra. Sá sem forðar sér frá tengslum við aðra reynir oft að fylla upp í skarðið með einhverju öðru; áfengi, vímuefni, ræktin, vinnan ofl.

Ein af fallegri setningum sem ég glósaði hjá mér í sálgæslunni á síðustu önn hljómaði svona: Ég er ekki fullkomin manneskja sem gerir aðra manneskju fullkomna. Ég er brotin manneskja sem getur gefið annarri manneskju ljós. Brot læknar brot, ekki hin fullkomna fyrirmynd.

Það er brotalöm í okkur öllum og þegar við berum kærleika til okkar sjálfra þýðir það í raun að við sjáum okkur eins og við erum og erum sátt við það sem við sjáum. Þegar við erum ósátt og ekki í tengslum við okkur sjálf eigum við erfiðara með að mynda tengsl við aðra og upplifum jafnvel að við eigum ekkert gott skilið og það sé göfugt að vera alltaf í pínulítilli þjáningu.

Eigum að reyna að leita eftir jafnvægi innra með okkur því um leið og við erum sátt við okkur sjálf eigum við möguleika á að mynda heilbrigð tengsl við aðra. Þegar ég hvíli sátt í mér er ég sáttari í samskiptum við aðra.

Gangi þér vel
Anna Lóa

Mynd: Shutterstock.com