Hvað finnst þér þú eiga skilið!

Það er ekki endilega auðveldara líf sem veitir okkur meiri hamingju. Barátta byggir upp styrk og þegar við þurfum að takast á við brekkur í lífi okkar aukum við smám saman styrk okkar og þol í lífinu sem eykur sjálfstraustið sem eykur líkur á meiri hamingju þegar upp er staðið. Í mínum huga snýst þetta líka um að hafa kjark til þess að láta reyna á hvað það er sem við erum fær um. Já mér finnst þetta snúast um að taka áhættuna og berskjalda sig gagnvart öðrum í stað þess að loka sig af því hræðslan við að vera hafnað tekur yfir. Við sjálf þurfum að vita hver er sýn okkar fyrir eigin framtíð og þurfum að hafa kjark til að láta á það reyna hvers við erum megnug. Við þurfum að sjá fyrir okkur hvert við viljum fara og ef við trúum því ekki sjálf að þangað sé hægt að komast þá er það stærsta hindrunin. Lífið er þannig spegill á því hvernig við sjáum okkur sjálf. Mér fannst myndin The Perks of Being a Wallflower alveg frábær en þar er einmitt ein persónan að velta fyrir sér af hverju gott fólk velur sér gjarnan inn í erfið sambönd. Mig langar að setja þetta hér á ensku eins og það kom fram í myndinni - svo mikill sannleikur þarna á ferðinni: Charlie: Mr. Anderson? Can I ask you something? Bill: Yeah. Charlie: Why do nice people choose the wrong people to date? Bill: Are we talking about anyone specific? [Charlie nods] Bill: Well, we accept the love we think we deserve. Charlie: Can we make them know that they deserve more? Bill: We can try. En þetta getur átt við svo margt annað. Það er ekki einhver þarna úti sem er að vega og meta hvað við eigum skilið - því það gerum við sjálf. Ef við erum óörugg með okkur og finnst jafnvel eins og við eigum ekkert gott skilið þá er það nákvæmlega það sem umhverfið skynjar. Það er ekki hægt að breyta því hvaðan við komum en það er vissulega hægt að breyta því hvert við viljum fara. Sama hvar við erum stödd í lífinu - það er alltaf hægt að endurskoða ferðalagið. Við þurfum að vega og meta hvað hefur gengið vel og hvað mætti fara betur. Við þurfum að vera tilbúin til að skoða hvers konar samböndum við höfum verið í og hverju við getum breytt þar. Við þurfum að skoða hvers konar framtíð við teljum okkur eiga skilið og hvort við séum virkilega að gera okkur sjálf grein fyrir því hvað það er sem við erum fær um í þessu lífi. Stundum erum við að bíða eftir viðurkenningu annarra á sama tíma og við erum sjálf bara alls ekki viss. Svona svipað og sölumaðurinn sem ætlar að selja vöru sem hann hefur ekki trú á - hann getur ,,leikið“ hlutverkið en þegar upp er staðið þá munu  margir sjá í gegnum það. Skoðaðu hindranirnar í lífi þínu, hverjar þeirra eru af annarra völdum og hverjar þeirra smíðaðir þú algjörlega sjálfur! Smíðaðu nýja sýn um hvert þú vilt fara og mundu svo að vökva þessa sýn með einhverju jákvæðu sem gerir það að verkum að þú heldur lífi í henni. Kærleikskveðja Anna Lóa