Hvað finnst þér gott að fá þér í morgunmat?

Bíómyndin Runaway bride mundi aldrei skora hátt sem djúp eða söguleg mynd - frekar sem skemmtileg afþreying í flokki rómantískra mynda með gamansömu ívafi.
En það voru skilaboð í þessari mynd sem skipta máli - og þess vegna tek ég hana oft sem dæmi þegar ég kenni sjálfstyrkingu (það má nefnilega hafa það gaman í kennslu smile broskall ). Skilaboðin eru - MAÐUR ÞEKKTU SJÁLFAN ÞIG - því ef þú gerir það ekki er allt eins víst að þú lifir lífi þínu eins og þú heldur að aðrir telja þér sæmandi.
Aðalpersóna myndarinnar, Maggie, var snillingur í að leika það hlutverk hverju sinni sem hún taldi að passaði þeim sem hún var með þá stundina. Þegar hún áttaði sig á því að hún var úr tengslum við sjálfa sig, tók hún á flótta, já hljóp í burtu. Hún þurfti að hafa mikið fyrir því að komast að því hver hún var - vísa t.d. í eggja-atriðið í myndinni en svo dæmi sé tekið þá hafði Maggie ekki hugmynd um hvað henni fannst gott að fá sér í morgunmat - fékk sér bara alltaf það sama og kærastinn í það og það skiptið. Hún lét velja fyrir sig og var ekki með neitt vesen! Hún tók þá ferð á hendur að kynnast sjálfri sér og þar með þurfti hún t.d að komast að því hvernig hún vildi eggin sín (sbr mynd með pistlinum).
Velur þú sjálf/-ur
Við getum auðveldlega dottið í það að láta aðra velja fyrir okkur og gleymum eða töpum þeirri getu að velja sjálf. Þegar við veljum þurfum við að vera meðvituð um að það sé vegna þess að við erum að fylgja hjartanu eða hreinlega vegna þess að okkur finnst það skemmtilegt, áhugavert o.s.frv, en ekki vegna þess að samfélagið segir okkur að „þetta“ sé rétta valið. Erum við að kaupa okkur eitthvað því allir hinir eru að gera það!
Það krefst kjark af okkar hálfu að velja okkar líf fyrir okkur. Það þýðir að við þurfum stundum að velja okkur frá hlutum, fólki, aðstæðum, sem AÐRIR telja að passi okkur en hver einasta taug í líkamanum segir að sé EKKI fyrir okkur. Það krefst kjark af okkar hálfu að viðurkenna að eitthvað sem átti einu sinni við eigi ekki við lengur og því sé komin tími til að kveðja það gamla.
Málamiðlanir eru eðlilegar í tengslum við ákveðna hluti en á heildina litið áttu að velja fyrir þig það sem þú telur vera gott eða henta inn í líf þitt þá stundina, út frá eigin smekk, gildismati, styrkleikum og draumum.
Stundum er það vanabundin hegðun að segja: mér er alveg sama og ætla mér að vera sátt við mitt, og þá gerir umhverfið ráð fyrir því að það þurfi ekki að bera virðingu fyrir óskum okkar eða löngunum. Sjálfstraust okkar ber skaða, því það er ekki gott að finna að skoðanir okkar skipta ekki máli og að fólk velji jafnvel fyrir okkur.
Hvað finnst þér gott að fá þér í morgunmat smile broskall
Veldu þitt líf fyrir þig! Kærleikskveðja Anna Lóa