Hinn (vandfundni) Gullni meðalvegur!

Þegar ég hugsa um lífið í heild sinni þá finnst mér það snúast meira eða minna um að leitast við að ná ákveðnu jafnvægi. Þessi „Gullni“ er vandfundinn og líklega væri bara ekkert gaman að rúnta þar alla ævi!

Við finnum flest fyrir því þegar við erum í ójafnvægi og því mikilvægt að skoða hvernig við tökumst á við þau tímabil. Stundum þurfum við bara að vera í tilfinningunni enda gæti hún verið að segja okkur eitthvað en þegar við eigum sögu um erfiða tíma þá er meiri hætta á að við getum dottið aftur í vansæl tímabil þar sem okkur finnst við ekki ráða við neitt. Sorgin er gott dæmi um þetta. Jarðafarir hafa allt aðra merkingu fyrir mig í dag en áður þar sem ég sæki sorgina mína í hvert skipti sem ég fer í jarðaför.

Ég hef oft talað um hugsanavillur sem eru eins og tölvuvírus sem ræðst á huga okkar. Ef við fjárfestum ekki í vírusvörn getur illa farið og „tölvan“ krassað! Ef við erum gjörn á að upplifa mikið ójafnvægi þurfum við að vera tilbúin til að skoða hvort það sé eitthvað sem við þurfum að huga að. Er ég alltaf að upplifa ójafnvægi við sömu aðstæður – þannig að í hvert skipti sem eitthvað ákveðið í lífi mínu gerist „krassa“ ég og því stend ég sjálfa mig að því að forðast þessar aðstæður ef möguleiki er eða deyfa mig þegar þær koma upp? En hvernig kemst „vírusinn“ inn í hausinn á okkur?

Ástæðurnar geta verið margar en það getur verið vegna ofbeldis, eineltis, vanrækslu, eða jafnvel veikinda innan fjölskyldunnar. Stundum gerðist eitthvað sem var óumflýjanlegt þegar við vorum börn, en hefur engu að síður afdrifaríkar afleiðingar fyrir okkur sem fullorðna einstaklinga. Svo getur vel verið að við höfum upplifað góða æsku en engu að síður könnumst við algjörlega við „vírusinn“ – þannig er það bara. Það sem skiptir máli er að barn sem upplifir sig öðruvísi gæti fest í því að gera öllum til hæfis eða vera sá sem er á móti allt og öllum. Vírusinn fylgir manni svo eftir og hefur áhrif á sjálfsmatið og því fylgir mikið álag sem kemur fram í innri vanlíðan og samskiptum okkar við aðra. Algengasta afleiðingin sem ég verð vör við er stórkostlegt vanmat á eigin getu með tilheyrandi tapi fyrir einstaklinginn sem á í hlut og samfélagið í heild sinni.

Eigin hugsanir og viðhorf getur þannig orðið að stærstu hindruninni í lífinu og breytist ekki til batnaðar nema viðkomandi efli trúna á sjálfan sig. Ég held að ein algengasta setningin sem ég heyri sem ráðgjafi sé „veistu Anna Lóa, ég hef bara ekki nógu mikla trú á sjálfum/sjálfri mér“!!!!

Hugræn atferlismeðferð hefur reynst mörgum vel en það má líkja því við að leiðrétta gamlar og úreltar hugsanir. Allar líkur eru á því að ef ég hef brugðist illa við einhverju sem barn þá haldi ég því áfram sem fullorðin manneskja, þ.e.a.s. ef ég er ekki tilbúin til að horfast í augu við þá reynslu og átta mig á því að hún þarf ekki að stjórna lífi mínu í dag. Þetta snýst um að bera kennsl á þessar hugsanir og viðbrögð okkar við þeim. Í framhaldinu þurfum við að hafa kjark til að bregðast öðruvísi við aðstæðum og setja okkur sjálfum og öðrum mörk í leiðinni.

Umhverfið speglar okkur alltaf og líf mitt breytist ekki þegar umhverfið breytist gagnvart mér. Líf mitt breytist þegar ég bregst öðruvísi við en ég er vön. Hugurinn okkar er dásamlegt tæki sem hefur fært okkur svo mikið í þessu heimi. En hann getur líka verið til mikilla vandræða og merkilegt að hugsa til þess að á sama tíma og veraldleg gæði aukast í heiminum þá hafa andlegir erfiðleikar aldrei verið eins algengir og alltaf yngri einstaklingar að greinast.

Ég mundi svo vilja auka umræðuna um manngildi í samfélaginu og hversu mikils virði það er að búa við andlegt heilbrigði. Það er svo mikið af einstaklingum úti í samfélaginu sem líður illa en gera sér ekki grein fyrir af hverju. Eru að upplifa þroskakreppur og jafnvel andlega erfiðleika og skrefin í átt að meiri vellíðan eru oft fólgin í kjarkæfingum til meiri sáttar við sjálfan sig, oftar en ekki með aðstoð fagaðila. Ég gæti svo skrifað svo miklu meira um þetta – miklu miklu meira, en læt þetta duga í bili og vona að þú hafir nennt að lesa alla leið 😇

Kærleikskveðja 

Anna Lóa
Mynd: shutterstock.com