Jákvæð heilsa!

Var svo heppin að hlusta á hollenskan lækni (Machteld Huber) á fræðsludögum í vinnunni um daginn en hún talar mikið fyrir jákvæðri heilsu (positive health) þar sem við skoðum líðan okkar út frá fleiri þáttum en líkamlegum og erum meðvituð um það sem er jákvætt í lífi okkar. Heilbrigði þurfi alltaf að skoða út frá heildrænni nálgun og endurskoða skilgreiningar varðandi heilsu og heilsubrest. Hún lagði áherslu á að við gætum lifað heilbrigðu lífi þrátt fyrir að við séum ekki 100% á öllum þeim sex þáttum sem skipta máli þegar kemur að heilsu – því jákvæð heilsa (positive health) snýr um svo miklu meira en líkamlegt ástand. Dr. Huber telur að við séum of upptekin af því að vinna með afmarkaða sjúkdóma í stað þess að vinna með heilsuna í heild sinni.
Líkamleg heilsa: það skiptir máli hvernig við upplifum okkur líkamlega og að við áttum okkur á því að við getum lifað heilbrigðu lífi þrátt fyrir að vera að takast á við einhverja líkamlega krankleika. Það skiptir máli að upplifa sig líkamlega vel á sig kominn, að maður sé að mestu leyti laus við verki og sé meðvitaður um mikilvægi mataræðis, hreyfingar og svefns.
Andleg heilsa: að maður heilt yfir sé í andlegu jafnvægi, og sé með gott minni, hefur færni til að einbeita sér og tjá sig. Þá skiptir máli að geta bæði upplifað gleði og sátt. Að búa yfir færni til að geta tekist á við breytingar og upplifa að maður sé við stjórn í lífi sínu.
Merking: skiptir máli að upplifa að líf manns hafi merkingu og maður leitist eftir að uppfylla þá þætti sem skipta mann máli. Að maður leyfi sér að eiga drauma og sé heilt á litið með gott sjálfstraust. Snýr líka að þakklæti og sátt með lífið í heild sinni á sama tíma og maður er tilbúin að læra nýja hluti.
Gæði lífsins: hér er verið að vísa til þess að maður finni til gleði í lífinu og upplifi sig hamingjusaman svona heilt á litið. Vellíðan þar sem lífinu er lifað í jafnvægi, maður búi við fjárhagslegt öryggi og við ásættanlegar aðstæður eru allt þættir sem tengjast gæðum lífsins.
Félagsleg virkni: að maður sé félagslega vel tengdur, eigi í merkingarbærum samskiptum við aðra og eigi stundir þar sem er verið að gera einhverja skemmtilega hluti með fólki sem skiptir mann máli. Þá er mikilvægt að hafa stuðningsnet í kringum sig og upplifa að maður tilheyri öðrum. Að vera þátttakandi í einhverju sem skiptir mann máli (félagssamtök, áhuga- eða tómstundahópar) og sýni sjálfur áhuga á umhverfi sínu og samfélagi.
Daglegt líf: að maður geti séð um sig sjálfur, þekki takmarkanir sínar og hvenær aðstoðar er þörf. Búi yfir færni til að skipuleggja tímann sinn og fjármálin og sinni vinnunni sinni svo vel sé.
Það sem Dr. Huber lagði áherslu á var að maður gæti ekki ætlast til að allir þessir þættu væru í topp tíu en hvert og eitt okkar ætti að skoða hvaða þættir það eru sem maður vill leggja áherslu á að breyta/laga/auka á þessum tímapunkti í lífinu. - Hvað skiptir máli fyrir þig NÚNA og hvað hindrar þig í að takast á við þá þætti? - Getur einhver aðstoðað þig og hver væru fyrstu skrefin. - Getur þú byrjað að gera eitthvað strax í dag?
Dr. Huber dreifði til okkar mynd þar sem við gátum merkt inn á hvar við teldum okkur vera stödd á skalanum 1-10 varðandi hvern af þessum sex þáttum þar sem 0 væri slæm útkoma en 10 væri sú besta. Markmiðið er að fá hvern og einn til að koma upp með svörin fyrir sig - setja sér sjálfur markmið, enda er það þekkt að það sem ég ákveð sjálf fyrir mig hefur meira gildi en þegar einhver segir mér að ég EIGI að gera eitthvað. Hvað er ég tilbúin að gera á þessum tímapunkti í lífi mínu. Ég á þessa mynd í pdf skjali og get sent hana til þeirra sem vilja. Þá hafið þið þennan pistil til hliðsjónar og notið svo spurningarnar hér að ofan. Sjálfri fannst mér gott að fara í gegnum þetta og setti mér einmitt markmið um hreyfingu og svefn til að ná mér eftir heilsubrest í vetur og hætti að fókusera eins mikið á það sem er ekki í lagi.
Læt þetta duga í bili!
Kærleikskveðja, Anna Lóa
Mynd: shutterstock.com