Hei þú, vertu svoldið normal!

Bíddu, bíddu, HA, eru þau hvað, að selja íbúðina og fara að ferðast í eitt ár. Er ekki í lagi með þetta fólk – geta þau ekki bara lifað NORMAL lífi eins og aðrir. Aldrei mundi mér detta svona vitleysa í hug. Þetta er örugglega af því að hún er svo óróleg alltaf – aldrei ánægð með neitt. Er‘ettekkibarabreytingaskeiðið HAAA“.

Þegar við erum sjálf ósátt þá gætum við fundið ákveðinn drifkraft í því að miða okkur við aðra - mér líður vel þegar ég get sett út á nágrannann minn – og auðvita mér í hag. Þegar við þekkjum okkur sjálf og erum sátt þá erum við ekki eins upptekin af viðmiðum við aðra. Man vel að áður en ég fór sjálf að mennta mig þá var ég mjög krumpuð gagnvart menntuðu fólki og dugleg að setja út á fjöldaframleiðslu úr háskólunum. HVAÐ átti að gera við allt þetta fólk – og hver var að borga fyrir þetta – ÉG!! Það var miklu auðveldara að vera í þessu liði í stað þess að segja; mig langar svo í háskóla, hvernig get ég látið þann draum rætast? Svo komst ég á þann stað að ég hafði kjark til að fara í háskóla, og þá var ekki aftur snúið. Sáttin við mig og aðra fylgdi í kjölfarið og krumpunum fækkaði því þetta var draumurinn minn.

Málið er nefnilega að við verðum mun ánægðari með okkur sjálf og aðra ef við lifum í samræmi við þær væntingar sem við gerum til lífsins. Það er svo gott að finna að maður er að lifa í beinu samræmi við sinn innsta kjarna en þegar vantar upp á sjálfsþekkinguna og maður veit ekki hvað það er sem skiptir mann máli þá fer maður jafnvel að fylgja því sem er vinsælt í því umhverfi sem maður dvelur í hverju sinni. Í versta falli getur það orðið til þess að við lögum okkur hugsunarlaust að samfélaginu sem við búum í og erum ekki að fylgja eftir okkar eigin draumum – vitum kannski ekki hverjir þeir eru.

Stundum dettum við inn í einhvern vana og það getur verið erfitt að breyta og þá sérstaklega þegar það er ekki neitt að í lífinu, en maður er orðin aðeins of upptekinn af hlutum sem skipta í raun ekki máli. Þá er miklu betra að sjá hvað er að hjá nágrannanum en í eigin húsi.

Ef ég mætti ráðleggja þér sem ert að lesa, þá mundi ég hvetja þig til að vera þinn eigin besti vinur alla leið og sjá fyrir þér hvert þú vilt fara með sjálfan þig og lífið. Stattu með sjálfum þér þegar þú veist hvað þú vilt og ekki gefast of auðveldlega upp. Ef þú veist ekki hvað þú vilt, þá mundi ég byrja þar. Reyndu að fjölga augnablikunum þar sem þú tekur andköf af spennu og gleði yfir einhverju í þínu lífi – í stað þess að hrista hausinn yfir því sem er að gerast hjá öðrum.

Ég mundi koma mér upp þykkum skráp því þegar þú ferð að standa meira með sjálfum þér fjölgar þeim sem hrista hausinn yfir ákvörðunum þínum – en þú ætlar ekki að láta það hafa áhrif á þig. Þaggaðu niður í röddinni í hausnum á þér sem segir að þú getir þetta ekki – hún hefur ekki áhrif nema þú leyfir henni að ráða. Ekki bíða eftir að fá hrósið eða viðurkenninguna – það er bara auka bónus en skoðaðu vel hvaða ráðleggingum þú ert að fylgja (eins og þessum hahaha).

Þú skalt aftur á móti taka eftir því sem vel er gert í umhverfinu þínu og hafa orð á því við viðkomandi. Það fylgir því yndisleg tilfinning að hrósa öðrum og ef þú lendir inni í miðri umhverfismengun þar sem er verið að gagnrýna einhverja manneskju fyrir að velja sína leið, þá er einstakt tækifæri til að kasta inn eins og einni hrós-sprengju!

Við getum farið í gegnum lífið með kreppta hnefa og krumpað andlit, alltaf tilbúin að láta fólk heyra það! Við getum líka farið með opin huga og hjarta, tilbúin að skoða hvað lífið hefur upp á að bjóða, forvitin um þær leiðir sem við getum farið og fengið góð ráð hjá öðrum ferðalöngum!

Anna Lóa
Mynd: pexels.com