Hamingjan í seinni hálfleik!

Má eiginlega segja að á fyrra hluta æviskeiðsins séum við safnarar og tökum endalaust á móti, en með tímanum breytist þetta og við hættum að bæta endalaust við nýrri þekkingu en förum í stað þess að nota reynslugreindina meira. Þá erum við í raun að nýta þekkinguna sem maður hafði mikið fyrir að ná sér í, og með meiri reynslu í farteskinu er hún enn verðmætari. Auðvitað erum við að bæta við okkur þekkingu ævina á enda, en við gerum það á annan hátt þegar við eldumst.

Reynslugreindin er ráðandi frá fimmtugsaldri og fram eftir aldri. Við finnum gjarnan fyrir því að hlutir sem hafa skipt okkur miklu máli fara að skipta minna máli og maður finnur ekki sama drifkraftinn og hvatann gagnvart ákveðnum verkefnum. Viðbragðshraðinn er kannski aðeins minni en við gefum okkur meiri tíma til að skoða hlutina og taka ákvarðanir út frá reynslu. Hæfileiki okkar til að miðla til annarra eða þjálfa eykst og það verður auðveldara að vinna með orð og texta. Þessu fylgir aukin hugmyndaauðgi og frumkvöðlahugsun og nánast eins og maður sé uppfullur af visku sem maður veit ekki alveg hvað maður á að gera við. Fólk upplifir oft ákveðinn óróa á þessu tímabili því þessu fylgja oft ný áhugamál og áherslur í lífinu en á sama tíma gæti maður upplifað að maður væri aðeins að missa‘ða.

Af hverju er ég að tala um þetta? Jú af því að þegar við erum jákvæð gagnvart þessum umbreytingum og áttum okkur á að við erum að öðlast eitthvað nýtt en ekki síður mikilvægt, hefur það mikil áhrif á hamingjuna. Þeir eru mun hamingjusamari sem átta sig á því að þrátt fyrir að tapa einhverju af því sem fengið var með virkri eðlisgreind þá var svo ótrúlega margt nýtt sem ávinnst með því að nýta reynslugreindina meira. Það getur verið að við séum ekki eins snögg að reikna út formúlur en við erum betri í að draga ályktanir, útskýrum þannig að fólk skilur, vinnum vel í teymum og eigum auðveldara með að aðstoða aðra. Þess vegna skiptir svo miklu máli að á vinnustöðum sé blandaður aldurshópur því það segir sig sjálft að það er vænlegra til árangurs að virða bæði þekkingu og reynslu í stað þess að keyra hlutina í gegn.

Við erum yfirleitt uppteknari af okkur sjálfum á fyrri hluta lífsins og riðjum hindrunum úr vegi til að komast áfram í kapphlaupinu. Þeir sem eru í kapphlaupinu gætu verið svo kappsfullir að þeir gleyma að bera virðingu fyrir fólkinu á hliðarlínunni og kannski af því að þeir telja þá ekki eiga séns á að taka þátt í hlaupinu. Þeir átta sig ekki á því að þeir eru flestir búnir að taka þátt í svona kapphlaupi og gætu miðlað til þeirra ýmsu; hvernig er best að undirbúa sig, hvenær er gott að fá sér vatnssopa, hvar eru erfiðustu hindranirnar og að það borgi sig ekki að byrja of hratt því þá er hætta á að sprengja sig. Lífið gengur ekki út á að toppa sig í einu kapphlaupi og gráta það svo næstu árin að ná aldrei aftur sama tímanum. Lífið er auðvitað ferðalag þar sem reynsla okkar og viðhorf hafa svo ótrúlega mikil áhrif á upplifun okkar hverju sinni.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að takast á við fjölbreytt störf sem hvert um sig hentuðu á hverjum tíma. Ég vona að ég verði betri kennari og pistlahöfundur með aldrinum því reynsla mín verður sífellt meiri og ég elska bæði að miðla og skrifa. Ég sest niður á hverjum föstudegi og skrifa pistil og reyni að sleppa því ekki nema ég neyðist til þess. Þetta skiptir mig máli, já mun meira máli en margt annað. Sumir eiga erfitt með að skilja þessa skuldbindingu mína þar sem mikilvægi verkefna er yfirleitt mælt í peningum. Ég veit betur og er meðvituð í dag um hve miklu máli það skiptir að ég velji inn í líf mitt verkefni sem fylla á hamingjubikarinn minn. Þessi pistill er líklega það sem hefur gefið mér mest í dag!

Í stað þess að vera föst í gömlum sigrum – veistu hver ég var - þá er svo mikilvægt að við skoðum stöðu okkar í dag, hvar styrkur okkar liggur, hvað það er sem skiptir okkur máli og hafa hugrekki til að gefa því bæði gaum og tíma.
Kærleikskveðja frá mér og góða helgi!

Anna Lóa
Mynd: pexels.com
Heimild: From Strength to Strength e. Arthur C. Brooks.