Grunlausa gínan!

Það verður seint sagt um mig að ég læðist með veggjum eða að það fari lítið fyrir mér. Ég tala hátt og mikið svo mörgum þykir nóg um, hláturinn djúpur og ég á það til að gleyma því að ég er ekki ein í heiminum. Fólki hefur verið tíðrætt um að það fari ekkert á milli mála þegar ég mæti á svæðið og fengi ég líklega seint viðurnefnið „Lóa lipurtá“ þar sem ég stíg bæði fast og ákveðið til jarðar. En hin síðari ár hef ég æft mig í framkomu og tjáningu og sýnt fram á að ég GET látið lítið fyrir mér fara þegar á þarf að halda. Ég hef náð ótrúlegum árangri og stundum fer svo lítið fyrir mér að undrun sætir – já svona rétt eins og ég setji á mig huliðshjálm sem gerir það að verkum að fólk tekur ekki eftir að ég sé á staðnum. Þetta getur komið sér vel og ótrúlega gott að geta „kúplað“ frá ef svo ber undir – já horfið inn í minn eigin heim.
Fór í menningarferð með vinnufélögum í höfuðborgina sem þýðir heimsóknir á söfn, skoða í búðir, setjast á kaffihús o.s.frv. Við gengum m.a. niður Skólavörðustíginn og kíktum í búðirnar og í einni slíkri var greinilegt að vinnufélagarnir voru yfir sig ánægðir með vöruúrvalið og vildu fá tíma til að gramsa aðeins. Ég var einhvern veginn ekki í „að gramsa þangað til ég finn eitthvað“  stuðinu þann daginn og því ákvað ég að standa álengdar og fylgjast með þeim og með það fyrir augum færði ég mig í eitt horn verslunarinnar og sett á mig huliðshjálminn. Skyldu þau átta sig á því að ég var þarna á staðnum!!
Eitthvað hefur hjálmurinn bara hulið hluta af mér því þar sem ég stend í mínum eigin heimi og horfi yfir dásamlegan hópinn gramsa, hlæja og skiptast á skoðunum um kostakaupin sem væri mögulega hægt að gera, veit ég ekki fyrr en ferðamaður, kona á miðjum aldri, stendur við hlið mér og horfir með einbeittum augum á mig.  Það verður að segjast eins og er að hún fór langt inn fyrir mitt persónulega svæði, þar sem hún stendur þétt upp við mig, já svona rétt eins og í ópal-auglýsingunni og mældi mig út frá toppi til táar. En ekki nóg með það, tilfinningin var rétt eins og ég væri ekki þarna sjálf þar sem hún var algjörlega afslöppuð í þessari rannsóknarvinnu sinni og grandskoðaði mig, svona eins og hún væri að athuga hvort eitthvað væri að kápunni minni.  En svo bar til tíðinda þegar hún fór að „þukla“ á mér, já áður en ég veit af þá strýkur hún eftir annarri erminni á kápunni og stoppaði við skinnrönd neðst á henni. Þar fer hún að þreifa á skinninu, svona eins og til að finna almennilega hvernig tilfinningu það kalli fram þegar hún virkilega leyfði því að leika á milli fingranna og ég áttaði mig á því að við svo var ekki lengur unað.
Ég dreg því að mér höndina og segi „excuse me, can I help you“! Viðbrögð hennar komu mér á óvart, en frá henni kom öskur, hún tekur fyrir munn sér og hálf dettur aftur fyrir sig. Svo horfir hún á mig eins og hún hafi séð draug og segir „I´m sorry, I thought you were a doll“ á sama tíma og hún hneigði sig nokkrum sinnum! Já, hún hélt sem sagt að ég væri gína og var hrifin af kápunni minni, sem hún taldi vera söluvöru. Framhaldið var einhvern veginn þannig að samferðarfólk hennar leiddi hana út úr búðinni og hún hneigði sig svo oft að ég sat eftir með samviskubitið.
Anna Lóa - það getur ekki verið!!
Víkur nú sögunni að vinnufélögunum sem áttuðu sig á stöðunni og í stað þess að gramsa í fatabunkum var það hláturinn sem fyllti hvern kima í versluninni og svo fór að ég þurfti að styðja hópinn út úr versluninni. Enn þann dag í dag finnst vinnufélögum mínum það hreint með ólíkindum að ÉG hafi getað þagað nógu lengi, eða staðið það kyrr að ég var tekin í misgripum fyrir gínu.
Þarna sýndi ég, svo ekki verður um villst, að ég get látið lítið fyrir mér fara og kem til með að nýta mér þennan hæfileika óspart. Þarf að sannfæra samstarfsfólkið mitt um þetta – þau halda ennþá að gínu-atriðið hafi verið einstakur atburður sem mér sé ómögulegt að endurtaka. Við skulum sjá!!
Kærleikskveðja, Anna Lóa!