Gott að minna sig á í byrjun árs.

Það er svo mikilvægt fyrir alla að sinna sjálfum sér þegar kemur að samskiptum - hvað er ég að gefa og hvað er ég að þiggja. Við þurfum að vera meðvituð um þetta bæði í einkalífi og starfi og vera meðvituð um hvar vinnan sleppir og einkalífið tekur við.

Hugsjónafólk er útsettara fyrir ,,burnouti“ í starfi og ætti að vera sérstaklega á varðbergi vegna þess. Allir sem starfa þar sem nándin verður mikil og tilvistarlegar kreppur eru algengar, verða að muna að hlaða batteríin. Allir sem eru að sinna eða hjálpa öðrum sem eru að fara í gegnum erfið tíma, verða að muna að hlaða batteríin. Persónulega þá sæki ég mér alltaf handleiðslu og hvet aðra til þess sama. Ef handleiðsla er ekki í boði þá getur samtal við aðra manneskju sem getur sett sig í spor viðkomandi, skipt öllu máli - það að geta speglað sig.

Þegar maður er mikið í kringum erfiðar aðstæður þá geta viðmiðin orðið skökk, því allt annað bliknar í samanburðinum. Við upplifum okkur jafnvel vanþakklát og miðað við það sem aðrir eru að fara í gegnum ÆTTUM við að vera svona eða hinsegin. Það er mikilvægt að þrátt fyrir að vera mikið í kringum vandamál og erfiðleika að muna að það skiptir líka máli að njóta þess sem maður á sjálfur. Við fáum öll verkefni til að kljást við og besta hjálpin felst oft í því að halda í sjálfan sig og gefa öðrum af þeim lífsneista sem maður býr yfir í stað þess að missa sig of mikið inn í aðstæður.

Að sýna samkennd og skilning, kærleika og stuðning, styrk og stoð er mun auðveldara ef maður man eftir því að setja súrefnisgrímuna á sjálfan sig fyrst og deila svo með öðrum. Það er ekki eigingirni - það er besta leiðin til að hjálpa öðrum á erfiðum tíma.

Ef þú sem ert að lesa, getur samsamað þig því sem hér stendur þá langar mig að hvetja þig til að hugsa vel um þig. Þú gerir hvorki sjálfum þér né öðrum gagn ef þú brennur út langt fyrir aldur fram.

Kærleikskveðja
Anna Lóa