Góður grátur er gulli betri!

Ég er búin að átta mig á því að ég hef verið dramadrottning allt mitt líf, og þá ekki endilega með neikvæðum formerkjum. Man eftir mér sem barni setja upp hvert leikritið á fætur öðru og það var aldrei talin góð uppfærsla nema það væri slatti af drama og helst grátið í lokin. Börnin í leikritunum áttu það sameiginlegt að eiga erfiða æsku og voru fyrirmyndir eins og Stikilsberja-Finnur og Oliver Twist ofarlega á blaði.

Móðir mín söng gjarnan fyrir okkur systkinin fyrir svefninn og lagið sem var í algjöru uppáhaldi hjá mér var um hann Villa litla sem dó. Ég fæ enn tár í augun þegar ég hugsa til systur Villa litla sem fór á krána til að reyna að fá pabba þeirra heim: Kom heim, kom heim, ó pabbi minn kæri kom heim!

Sálgæslan Svo var það í sálgæslunáminu sem ég sat áfanga þar sem beinlínis var hvatt til tilfinningaútrásar þar sem gráturinn var efstur á blaði. Dramadrottningin fann strax að þarna var hún búin að finna eitthvað sem átti ótrúlega vel við hana. Í áfanganum voru við hvött til að lesa bækur og horfa á bíómyndir sem tengdust efni áfangans sem var dauðinn og sorgin. Ég las sorglegar bækur sem aldrei fyrr og horfði á bíómyndir sem kölluðu fram ótrúlegustu tilfinningaviðbrögð og skildu mig eftir máttfarna af gráti (en ég get líka grátið yfir Voice sjáiði til). 
Shadowlands
Kvikmyndin Shadowlands stóð algjörlega undir væntingum sem grátmynd - og fyrir dramadrottninguna var ómetanlegt að geta setið fyrir framan sjónvarpið og grátið en geta í leiðinni sagt að þetta væri heimaverkefni! Myndin, sem skartar þeim Anthony Hopkins og Debru Winger í aðalhlutverkum byggir á sannsögulegum atburðum og fjallar um ástarsamband breska rithöfundarins C.S. Lewis og bandarísku skáldkonunnar Joy Gresham. Þarna má finna allt sem prýðir gott drama og myndin full af yndisfögrum atriðum og setningum sem skilja engan eftir ósnortinn (mundi ég halda). Og hvernig getur maður ekki grátið yfir svona dásemd:  

Why love, if losing hurts so much?

I have no answers anymore: only the life I have lived. Twice in that life I've been given the choice: as a boy and as a man. The boy chose safety, the man chooses suffering. The pain now is part of the happiness then. That's the deal. (Shadowlands)

Í framhaldi af Shadowlands fékk ég lánaða myndina My sister´s keeper hjá frænku minni og þegar hún lét mig fá hana hvíslaði hún í eyra mér; Anna Lóa, ég mundi horfa á hana ein, en þá getur þú alveg sleppt þér og grátið óheft. Það reyndist algjörlega hárrétt ákvörðun og ótrúleg útrás sem átti sér stað þá kvöldstund. Þegar ég fékk síðan það verkefni að lesa barnabók fyrir einn tímann átti ég ekki von á að bókin yrði lesin upp til agna á einu kvöldi og mundi skilja mig eftir grátbólgna og þrútna og blaðsíðurnar límdar saman eftir tilfinninga rússibana af bestu gerð. Um er að ræða bókina Loforðið eftir Hrund Þórisdóttur en bókin fékk barnabókaverðlaunin árið 2007 og óhætt að mæla með henni fyrir börn jafnt sem fullorðna. Bókin fjallar á nærfærinn hátt um sorgina og dauðann en ekki síður um lífið sem heldur áfram þrátt fyrir áfall og missi.

Safna í grátbunka Ég veit ekki alveg hvað það er, en stundum fær maður svakalegt kikk út úr því að gráta almennilega. Maður getur skýlt sér á bak við myndir eða bækur en grátið í leiðinni út af alls konar gömlum óuppgerðum hlutum. Þannig getur maður safnað í góðan grátbunka og sleppt sér svo almennilega: gamlir draumar, áföll, vonir sem urðu að engu, orð sem hafa verið sögð og önnur sem voru aldrei sögð, brostið hjarta og forboðin sorg. Allt eru þetta hlutir sem við gætum þurft að syrgja og þetta nýtti ég mér til hins ýtrasta.

En að öllu gríni slepptu þá er nauðsynlegt að leyfa sér að gráta. Lífið er ekki einn táradalur en eitt og annað sem við þurfum að takast á við sem kallar fram tár eða tvö. Vanmat á sorg eða forboðin sorg, þar sem fólk lokast inni með tilfinningar sínar finnur sér yfirleitt annan farveg sé henni ekki sinnt. Þeir sem eiga erfitt tilfinningalega og finnst veikleikamerki að sýna sorgarviðbrögð finna oft fyrir meiri líkamlegum einkennum en þeir sem gangast við sorginni. Við þurfum að hlúa að sorginni eins og öðrum sárum, þau gróa með tímanum en eftir standa ör sem minna okkur á.

Ef þú lesandi góður skyldir mæta mér úti á göngu eða akandi um götur bæjarins, rauðflekkótta í framan með maskara niður á kinnar þá skaltu ekki örvænta. Ég er líklega bara að hlusta á góða dramatíska hljóðbók eða Titanic lagið (hver grætur ekki yfir því), eða með kveikt á útvarpinu og þar er verið er að tala á „léttu“ nótunum um ástandið á Íslandi. Góður grátur er gulli betri!

Þangað til næst - gangi þér vel! Anna Lóa