Gleðilegt ár!

Vonandi eruð þið búin að hafa það gott yfir hátíðirnar. Hef sjálf notið þess að vera í kringum fjölskyldu og vini og held að ég hafi sjaldan verið eins félagslega virk og um þessa hátíð. Kannski af því að dags daglega er fjarlægðin á milli mín og þeirra meiri en áður og þá er maður enn meðvitaðri um mikilvægi félags- og fjölskyldutengsla.

Það hefur margt gerst í lífi mínu á þessu ári en allt er breytingum háð. Hamingjusamt líf er ekki einhver ákveðin tegund af lífi.  Í lífi okkar allra skiptast á skin og skúrir og mikil áskorun sem felst í því að fara í gegnum verstu lægðirnar.  En það eru nú samt oft þær sem byggja upp styrk og þol og gera okkur kleift að takast á við ýmislegt sem við hefðum ekki talið okkur ráða við áður.

Vellíðan og jafnvægi
Almenn vellíðan í lífinu er vinna sem tengist inn á marga þætti og ef einhver þessara þátta er vanræktur skapast ójafnvægi sem er eiginlega óhjákvæmilegt þegar við tökumst á við miklar breytingar. Í lógói Hamingjuhornsins er blóm með sex blöðum í ólíkum litum. Þessi blöð vísa til þeirra þátta sem við þurfum að huga að í lífi okkar: andlegi þátturinn, sá líkamlegi, persónulegi, samskiptin okkar, starfsferillinn og leikurinn.

Ef við vinnum mikið og það hallar á aðra þætti finnum við það fyrr eða síðar. Að sama skapi þá upplifum við jafnvel tilgangsleysi og vanlíðan þegar við erum án vinnu. Ef maður er í sambandi og týnir sjálfum sér „í nafni ástarinnar“ fer fljótlega að halla undan fæti, en að sama skapi getum við upplifað vanlíðan og einmanaleika þegar við treystum okkur ekki að opna hjartað fyrir öðrum. Jafnvægi er lykillinn en lífið er nú bara einu sinni þannig að slíkt kemur ekki eftir pöntunum. Lykillinn er sjálfsþekking þar sem við þurfum að vera tilbúin að skoða hvaða þættir hafa þannig áhrif að við erum alltaf að upplifa ójafnvægi. Þegar við förum í gegnum áföll og mikla erfiðleika þá er ójafnvægi óhjákvæmilegt en þar lærum við líka betur á líkama okkar og taugakerfi.

Líta yfir farinn veg
Á þessum tíma ársins er gott að líta yfir farinn veg og skoða hvernig okkur líður með okkur sjálf og það sem er í gangi. Hvar erum við stödd andlega, líkamlega, persónulega og félagslega? Þykir okkur vænt um þá manneskju sem við erum og finnum við almennt fyrir sátt þar sem við upplifum að líf okkar hefur tilgang. Ef okkur langar ekki í það líf sem við eigum hvernig líf er það þá sem við sækjumst eftir?

Þegar kemur að persónulegri og hugrænni vellíðan þurfum við að vera meðvituð um hvað fer í gegnum huga okkar, hverju veitum við athygli og hvernig getum við notið frelsi hugans á jákvæðan hátt fyrir okkur sjálf og umhverfið. Getum við æft okkur í að langa í það sem við eigum nú þegar?

Til að líða vel líkamlega þurfum við að halda líkamanum vel nærðum og í góðu ásigkomulagi en flest erum við sérfræðingar í hvað gerir okkur gott. Ekki festast í viðmiðum við aðra og glepjast af endalausum markaðsátökum það sem allir vita betur en þú. Gerðu það sem þú VEIST að er gott fyrir þig – þú þekkir þig best. Ekki drekka 10 lítra af kaffi á viku, rauðvínsglas á hverju kvöldi og vínber í hvert mál, af því að nýjustu rannsóknir segja að það sé gott fyrir þig!!

Ein aðal áskorunin að jafnvægi í lífinu er að sækjast eftir vellíðan í samskiptum við aðra. Bestu samböndin eru þau þar sem gagnkvæm virðing, heiðarleiki og opin tjáskipti eru höfð að leiðarljósi. Ekki bíða eftir því að aðrir tileinki sér þann samskiptamáta – vertu breytingin sem þú vilt sjá.

Ég minntist á vinnuna hér í byrjun en vellíðan í starfi er mikilvæg. Hver og einn þarf að átta sig á því hvort hann finni tilgang með vinnu sinni eða er einungis um tekjuöflun að ræða. Getum farið í gegnum tímabil þar sem tekjuöflun skiptir öllu máli en það er vondur staður að festast á ef það er engin starfsánægja til staðar.

Leikurinn í lífinu
En svo þurfum við líka leikinn inn í líf okkar og þar hef ég gleymt mér oft og iðullega. Leikurinn er mikilvægur og að njóta þess að hafa gaman af lífinu. Þrátt fyrir að við séum flest snillingar að auka á erfiðleikana í lífi okkar þá þarf þetta ekki að vera svona erfitt. Við þurfum að byrja á því að spyrja okkur hversu auðvelt við eigum með að leyfa okkur að hafa leik sem hluta af lífinu. Frítíminn er okkur mikilvægur og þá bæði til að hlaða batteríin en ekkert síður til að gera hluti sem við höfum gaman af að gera.

Ármótaheitið mitt er að leika mér meira J
Langar að óska þér gleðilegs árs og takk fyrir að lesa pistlana mína. Er með besta og vandaðasta lesendahóp landsins (jú ég má alveg segja það J) og fyrir það er ég svo þakklát. Hlakka til ársins 2016 og vona að þú verðir með mér í nýjum áskorunum og vonandi áttu þess kost að finna þitt jafnvægi.

Kærleikskveðja 

Anna Lóa