Getum við einfaldað!
Í samtölum mínum við fólk er algengt að talað sé um álag í lífi og starfi með tilheyrandi vansæld og vonleysi. Það fyrsta sem fer þegar við upplifum mikið álag, er hæfileiki okkar til samskipta svo það eru margir að upplifa samskiptaerfiðleika, bæði í vinnu og einkalífi sem má rekja til þess að það er skortur á tíma. Eftir eitt námskeiðið í síðustu viku setti ein konan fram þessa spurningu; Anna Lóa, í alvöru, hvað getum við gert?
Ég hef verið svo hugsi yfir þessu og í sannleika sagt held ég að hvert og eitt okkar þurfi að vera tilbúið að líta í eiginn barm. Það er svo margt sem keppir um tíma okkar í dag því fyrir utan vinnu og fjölskyldu þá hafa bæst við símar og fartölvur, ipadar og annað sem eykur á flækjustig nútímans. Staðreyndin er sú að þegar það eru svona margir þættir sem keppa um athygli okkar þá minnkar hæfileiki okkar til njóta hvers þessara þátta.
En tækniþróunin er ekki að breytast og kröfur í nútímasamfélagi haldast í hendur við þá þróun. Tímafátækt leiðir af sér ófullnægju á svo mörgum sviðum og við langvarandi álag aukast líkur á vanlíðan sem hefur áhrif á allt líf okkar. Ég held að við þurfum því að skoða hverju við getum breytt og byrja á því að einfalda líf okkar. Mikið álag er ekkert sér íslenskt fyrirbæri enda um að ræða afleiðingar af hraðri þróun á hinum ýmsu sviðum – þróun sem er komin til að vera.
Ég er ekki öðruvísi en aðrir og upplifi stundum að tíma mínum megi svo sannarlega vera betur varið. Ég las í grein um daginn að Bandaríkjamaður á aldrinum 18-64 ára eyði að meðallagi 3,2 tímum á samfélagsmiðlum á dag. Hverni ætli þetta sé hér á landi – og það má gera heilmikið með þennan tíma. Hvernig erum við að nýta tímann okkar svona almennt og getum við sleppt hlutum sem skipta minna máli?
Ef við erum tilbúin að skoða þessa hluti hjá okkur sjálfum þurfum við að vera tilbúin að spyrja okkur eftirfarandi spurninga:
• Hvaða þættir í lífi mínu eru yfirþyrmandi?
• Hvar langar mig til að einfalda?
• Þarf ég að minnka eignir mínar, ábyrgð og upplýsingaflæðið?
Í mínum huga snýst álagið í samfélaginu ekki um eitthvað óyfirstíganlegt sem þarf að sætta sig við á sama tíma og ég veit að það er ég sem þarf að taka ábyrgð á mínu lífi. Svo ég nefni stafræna heiminn aftur, að þá hef ég á síðustu árum alltaf tekið mér þar frí í einhvern ákveðinn tíma, og verið meira í tengslum við raunheima. Þetta geri ég til að stilla mig af og finna tíma í það sem mig langar að gera en upplifi að mig vantar tíma. Við teljum okkur kannski trú um að við séum við stjórn og þessi stafræni heimur sé bara þarna til ánægju og yndisauka, en við finnum ekki fyrr en við hvílum okkur frá honum hvað hann er í raun virkur í lífi ykkar og mikill tímaþjófur.
Þetta verður oft hvati að meiri breytingum því með því að hafa meiri tíma fer ég að sinna hlutum sem hafa mætt afgangi. Því getur verið ágætt að byrja á því að skoða þessa þætti þegar maður upplifir álag og þessir punktar eru ágætis byrjun:
1. Taktu viku fyrir þar sem þú minnkar netnotkun þína umtalsvert og reyndu að vinna „ótengdur“ eins oft og þú getur
2. Settu sjálfum þér reglur varðandi netið - bæði varðandi tölvupóstinn og netið, hversu oft þú ferð þar inn og hversu lengi þú ert þar
3. Þegar þér finnst þú verða að fara á netið - reyndu að standast það, vittu til, löngunin minnkar.
4. Finndu önnur verkefni sem þú nýtir tímann þinn í – eitthvað sem þig langar að gera en finnst þig hafa vantað tíma í
5. Gefðu þessu tíma - lærðu að njóta
Ég hvet þig sem ert að lesa þetta að skoða líf þitt. Ég hvet þig til að skoða skuldbindingar þínar og hvernig þú getur fækkað þeim. Það gæti verið ágætt að skrifa lista yfir verkefni á vikutímabili og skoða svo hvert atriði og spyrja sig síðan: hvað af þessu skiptir mig máli og gefur lífi mínu meira gildi? Hvaða áhrif hefði það á líf mitt ef ég mundi sleppa þessu? Færir þetta mig nær markmiðum mínum?
Mundu bara að þú berð ábyrgð á lífi þínu og undir þér komið að breyta því. Ekki bíða eftir að aðrir uppgötvi að það sé of mikið álag á þér sem þurfi að bregðast við. Þú skalt bregðast við því og einbeita þér að því að eiga fleiri ánægjustundir í lífi þínu.
En svo snýst þetta ekkert síður um mataræði, svefn, hreyfingu ofl. og meira um það síðar.
Kærleikskveðja
Anna Lóa