Gangan þín!

Það er hlaupari, fyrsti hlauparinn! Við stigum út í kant á annars mjóum stígnum og horfðum með aðdáun þegar Vaidas Zlabys hljóp framhjá okkur. Ég hafði ekki einu sinni vit á því að taka mynd – svo margar hugsanir fóru í gegnum hausinn á mér en aðallega var það hugsunin; hvernig er þetta hægt, hvernig er hægt að hlaupa Laugaveginn á nokkrum klukkutímum (Vaidas hljóp á 4:17 klst. á meðan flestir labba þetta á nokkrum dögum).

Það var eitthvað ótrúlega ofurmannlegt við þetta, enda birtist hann eins og atriði úr einhverri ofurhetjumynd á stuttbuxum og bol, á sama tíma og maður var sjálfur að teipa og afteipa tær og hæla, klæða sig í og úr eftir aðstæðum, vega og meta hvenær ætti að hvílast, sjá fyrir sér næsta vað og ímynda sér gleðina í við endamarkið, já í Þórsmörk. En þetta minnti mig líka á annað og það að við erum öll á þessu ferðalagi á eigin forsendum og mismunandi hvað drífur okkur áfram. Við þurfum ekki að vera í samanburði – best ef maður veit hvað það er sem drífur mann sjálfan áfram, já skiptir mann máli og er raunhæft miðað við aldur og fyrri störf.


Þannig setur maður sér markmið út frá sér en ekki öðrum og reyni sitt besta til að ná þeim markmiðum. Veit samt að þar sem Vaidas nánast sveif framhjá mér á hálendinu fylltist ég einhverjum krafti og steig næstu kílómetra með aðeins meiri ákefð.

Þannig getur maður haft áhrif á fólkið í kringum sig – við þurfum ekki öll að stíga í sömu fótsporin - en við getum samt nýtt okkur þá stíga sem er búið að troða á undan okkur til að auðvelda gönguna. Í stað þess að slökkva ljós annarra til að okkar skíni skærar er svo mikilvægt að átta sig á því að það er pláss fyrir okkur öll. Vaidas var auðvitað bara sá fyrsti af rúmlega 500 manns sem hljóp Laugaveginn þennan daginn á nokkrum klukkutímum. Mér finnst alltaf jafn fyndin sú tilhneiging að gera lítið úr afrekum annarra og jafnvel hneykslast yfir því að einhver skuli yfirleitt leggja svona nokkuð á sig. Kannski eru ofurmennin áminning til okkar – ekki um að við getum öll orðið ofurmenni, frekar að við getum flest mun meira en við erum að gera í dag.

Fyrir mig var þessi ganga persónulegur sigur. Ég gekk Laugaveginn á tveimur dögum og réði vel við það en á göngunni fór ég oft tvö ár aftur í tímann þar sem ég sá svo sannarlega ekki fyrir að mér ætti eftir að takast eitthvað þessu líkt á næstu árum. Ég fékk slæmt brjósklos vorið 2018 og ári síðar var ég enn að fást við mikinn doða í fótleggjum og verki í baki. Það var þá sem sjúkraþjálfarinn minn benti mér á að ganga í þúfum eða á fjöll og þar sem ég var tilbúin að prófa nánast allt á þessum tímapunkti tók ég fjöllin í kringum Reykjavík með trompi veturinn 2019. Ég fann hvernig ég styrktist smám saman og á göngunni um helgina fann ég einungis verki í bakinu þegar ég reyndi að festa svefn í Hvanngili. Þetta á ekki að vera nein hetjusaga af mér – ég vil einungis vera hvetjandi og ef einhver þarna úti er að takast á við eitthvað svipað og ég gerði fyrir tveimur árum þá gæti þessi lestur vakið von. Veit bara að svona sögur gerðu mikið fyrir mig á sínum tíma og ég segi gjarnan að ég hafi gengið í átt að betri heilsu og meiri hamingju!

Ég er því þakklát öllum þeim sem hafa fetað fjallastíga þessa lands á undanförnum árum og jafnvel árhundruðum. Öllum þeim sem hafa mótað og þjappað stíga sem við hin getum fetað eftir í framhaldinu, hver og einn á sínum hraða. Þakklát öllum þeim sem ýta við öðrum, er umhugað að lyfta náunganum upp, stappa í hann stálinu og minna á að við getum flest miklu meira en við erum að gera í dag.

Til hamingju Vaidas Zlabys - ekki endilega viss um að þú lesir þetta eða sendir mér vinarbeiðni 😅 en það skiptir ekki öllu. Þú hefur þegar haft jákvæð áhrif á mig og það skiptir máli og ég er bæði sátt og þakklát fyrir tveggja daga gönguna mína 🙏🏃‍♂‍🥾Kærleikskveðja,
Anna Lóa

Mynd: pexels.com