Fyrstu viðbrögð við kvíða!

Bíddu bíddu, hvað er nú í gangi núna!  
Þetta var í lok dags og ég sat við skrifborðið í vinnunni. Allt í einu upplifði ég mikil þyngsli fyrir brjósti,  sem ágerðust hratt. Það var rétt eins og ég væri með þungan múrstein á brjóstkassanum og ósjálfrátt krosslagði ég lófana á brjóstið og beygði mig fram. Þessu fylgdi verkur upp í kjálka, andnauð og á stuttum tíma var ég undirlögð af verkjum, svimatilfinningu og doða. Mér leið svona eins og ég væri við hliðina á sjálfri mér. Ég varð hrædd – þetta var eitthvað nýtt.  Skildi ég vera að fá hjartaáfall!! Ég fór á kvöldvaktina á heilsugæslunni og var skoðuð, sett í hjartalínurit ofl. Þar var mér tjáð að það væri mjög ólíklegt að þetta væri í tengslum við hjartað en læknirinn spurði mig hvort það hafi verið eitthvað sérstakt í gangi í lífi mínu. Ég man að þessi spurning pirraði mig, ætlaði hann í alvöru að fara að segja mér að þetta væri andlegt eða álagstengt (hroki og fordómar í mér). Ég fór öll í vörn og svaraði; nei einmitt ekki, ég er einmitt komin svo langt með að vinna úr áfalli sem varð í fjölskyldunni – lífið að komast í eðlilegan farveg á ný og ég ræð vel við allt.  AHA immit – eins og einhver hefði sagt!

 

Ég fór á frábæran og praktískan fyrirlestur um daginn. Fyrirlesturinn var um fyrstu viðbrögð við kvíða en ég hef kynnst kvíða bæði sem fagmaður og persónulega. Lýsingin hér fyrir ofan er einmitt frá einu slíku kvíðakasti en þau urðu nokkur áður en ég viðurkenndi eða hreinlega áttaði mig á þessi viðbrögðum líkamans á tímabili þar sem ég upplifði mig við stjórn og í góðu jafnvægi. Líkaminn er nefnilega svo ótrúlega fullkominn – hann hjálpar okkur í gegnum allskyns þrautir og álag en svo er rétt eins og það komi tími sem hann segir; stopp, hingað og ekki lengra….þú hefur engan tíma fyrir mig og nú get ég ekki meira í bili.

 

Það má líkja ofsakvíðakasti við ofurvirkjun – kvíðakerfið virkjast 100%. Svo sannarlega ógnvekjandi upplifun en getur hjálpað til að vita að þetta er ekki hættulegt ástand og gengur yfirleitt yfir á 10 mínútum. Hefði það dugað mér að vita það í fyrsta skipti sem ég upplifði þetta – NEI líklega ekki, en það hefði hjálpað mér mikið að átta mig fyrr á því hvað var í gangi. Í fyrirlestrinum var lögð áhersla á atferlistilraunir og stíga inn í óttann og það er einmitt það sem ég gerði eftir nokkur köst. Það þarf svolítið að vinna á móti kvíðanum, segja honum að þú vitir að þetta sé ekki hættulegt og tala þig í gegnum þessar 10 mínútur. Þá gæti líka verið gott að biðja fólkið þitt að hjálpa þér að normalisera aðstæðurnar með þér og þá komum við að öðru – skömminni.

 

Skömmin gerir það oft að verkum að við sitjum uppi með þessa vondu tilfinningu sem við deilum ekki með öðrum. Það að deila hér með ykkur er liður í því að segja; já ég hef upplifað kvíðakast og ætla ekki að skammast mín fyrir það. Skömmin gerir bara illt verra – og við þurfum að muna að flestir upplifa að tilveru sinni sé ógnað einhvern tímann á ævinni og líkaminn bregst við með kvíðaviðbragði. Munið – allt sem skiptir okkur máli veldur kvíða – og yfirleitt viðráðanlegum kvíða. Kvíðaviðbrögð eru náttúrleg leið líkamans til að vara okkur við að ógn steðjar að og þá er gott að minna sig á að ógnin þarf ekki að vera raunveruleg en viðbragðið er það sama þrátt fyrir það. Kvíðinn er alltaf í hörmungarhyggjunni og sér bara það versta. Þess vegna er gott að deila líðan sinni og hvað er að fara í gegnum kollinn á manni þegar maður t.d. verður fyrir áföllum og áskorunum í lífinu. Við þurfum að muna að þegar við erum að fara í gegnum erfiða tíma að þá er kerfið okkar viðkvæmara og þá þarf minna til að kveikja á því.

 

Þegar kvíðinn verður hamlandi og hefur áhrif á daglegt líf er talað um klínískan kvíða sem þarfnast meðferðar og kvíðaraskanir eru læknalegar. En þar sem kvíðinn truflar ekki daglegt líf en er samt þarna er um að gera að prófa sig áfram í atferlistilraunum. Já þær virka. Sjálf bauð ég kvíðann velkominn – sem var ekki auðvelt. Ég hreinlega talaði við hann; já bíddu, ert þú kominn núna, hélt þú værir hættur að koma í heimsókn. Ekki halda að þú fáir að taka yfir…….Svo talaði ég mig í gegnum þessar mínútur – sem eru eins og 100 en eru í raun bara 10.

 

Það er ýmislegt sem hefur áhrif á mig og ég reyni að vera meðvituð um hvað það er. Áreitin eru mörg og bara það að skrifa þennan pistil kallar upp smá viðbrögð. Það er ekki ólíklegt að einhver sem er að lesa þetta finni til smá kvíða við lesturinn – sem er sönnun þess hvernig ósjálfráða kerfið vinnur.

 

Ef þú sem ert að lesa kannast við það sem hér hefur verið sett fram hvet ég þig til að skoða köstin þín og æfa þig í að bregðast við þeim. Trúðu mér, um leið og viðbrögðin þín breytast, þá upplifirðu að þú hafir einhverja stjórn sem hefur yfirleitt jákvæð áhrif. Það er svo mikilvægt að alla ekki á óttanum við kvíðakast – og þú minnkar óttann með aukinni þekkingu á þér. Ekki fara í viðmið við aðra – lærðu á þig og þín viðbrögð.

 

Þessi grein á fyrst og fremst að vera upplýsandi en ég hvet alla til að kynna sér hvernig kvíði hagar sér því það er nánast 100% að ef við græðum ekki á því sjálf þá er einhver í kringum okkur sem gæti grætt heilmikið á viðbrögðum okkar á ögurstundu.

 

Kærleikskveðja,

 

Anna Lóa
Mynd: Shutterstock.com