Frestun á umbun

Var að kenna í morgun sem er ekki til frásögu færandi en þar sem um var að ræða nýjan hóp af nemendum var tilvalið að deila með þeim eigin skólasögu og hversu erfitt það reyndist mér að klára hluti hér á yngri árum. Ég átti erfitt með að halda út og þrautseigja var eitthvað sem ég fletti bara upp í orðabók.

Ég man þegar ég lærði fyrst um tilfinningagreind þegar ég var í Kennó og frestun á umbun var talin sem mikilvægur þáttur til að efla tilfinningagreindina. Ég var miður mín, því frestun á umbun hefur aldrei reynst mér auðveld og ef ég hefði átt að velja á milli sykurpúða og heilhveitibrauðsneiðar sem barn (sem var fræg rannsókn gerð á börnum) þá hefði ég ekki verið lengi að grípa sykurpúðann. Sálfræðingar hafa talað mikið um síðustu áratugi nauðsyn þess að geta frestað ánægju eða umbun og þar sé um að ræða einn af hornsteinum í þroska mannsins frá barnæsku til fullorðinsára.

Við vitum öll að hreyfing bætir heilsuna en samt sleppum við því að æfa. Við vitum að of mikill sykur og brasaður matur er slæmt fyrir heilsuna en samt grípum við handfylli af sælgæti eða snakki án þess að hugsa okkur um. Við vitum að það skiptir máli fyrir okkur að rækta vini okkar og fjölskyldu en þegar það er mikið að gera í vinnunni þá gleymum við þessu. Okkur er gjarnara að eyða pening í stað þess að spara því skammtíma vellíðan í dag er meira freistandi en sparnaður fyrir góð ár í ellinni.

Það er miklu auðveldara að hugsa um að fullnægja þörfum sínum núna í stað þess að taka ákvarðanir til lengri tíma. Við höfum svo mörg tækifæri til að fullnægja okkur hér og nú sem þýðir að það verður alltaf erfiðara að taka ákvarðanir varðandi síðari tíma. Sannleikurinn er sá að skammtíma sjálfið okkar vinnur og fær sér eftirrétt þrátt fyrir mótmæli frá langtíma sjálfinu sem vill heilbrigðari líkama og lengra líf.

Á meðan við látum undan skammtíma löngunum okkar er erfitt að hafa áhrif á langtíma breytingar í lífi okkar. Það er ein lausn til: skammtíma hvatning sem er í samræmi við langtíma markmið okkar auðveldara okkur að taka réttar ákvarðanir. Sem dæmi, það er mun auðveldara að sleppa því að fá sér ostborgara og franskar (ekki vegna þess að þú gætir orðið feitur eða fengið sykursýki síðar á ævinni) heldur vegna þess að þú verður með ,,fitu-þynnku“ það sem eftir lifir dagsins sem jafnvel eyðileggur hann. Eða við ákveðum að fara að æfa um morguninn því við vitum að það hefur jákvæð andleg áhrif næstu 12 tíma á eftir.

Þegar við sjáum að við ,,græðum“ strax á athöfninni eru mun meiri líkur á að við séum tilbúin í breytingar hér og nú. Með því að setja strax þessa jákvæðu þætti í forgrunninn og breyta þannig smám saman daglegri rútínu, erum við að hafa mikil og varanleg áhrif á vellíðan okkar. Þetta þarfnast vinnu af okkar hálfu og vilja til að taka ábyrgð á lífi okkar.

Þegar upp er staðið snýst þetta um að átta sig á heildarmyndinni varðandi vellíðan í gegnum lífið. Markmiðið er að þú njótir hvers dags, fáir meira út úr lífinu í heildina og síðast en ekki síst að þú hafir áhrif á vellíðan fólksins í kringum þig; vini, fjölskyldu, samstarfsfélaga og annarra í samfélaginu.

Þangað til næst
Gangi þér vel!!
Anna Lóa

Mynd: Shutterstock.com