Freddie Mercury!

Ég elska myndina Bohemian Rhapsody, um líf Freddie Mercury. Myndin er djúp og skilur heilmargt eftir sig og langar mig að deila með ykkur smá samtali úr myndinni sem ætti ekki að eyðileggja neitt ef þið ákveðið að horfa svo á hana.

Það var öllum ljóst að Freddie var týndur á ákveðnu tímabili lífsins. Þegar hann hitti Jim, sálufélaga sinn í fyrsta skipti þá ræða þeir svokallaða „vini“ Freddie, blóðsugurnar sem nýttu sér frægðina og allt sem kom með henni. Þeir eiga innilegt samtal og Jim segir nokkuð ljóst að Freddie vanti góða vini.

Freddie við Jim: mér líkar við þig!

Jim svarar þá á móti: mér líkar líka við þig en komdu og finndu mig þegar þér er farið að líka betur við sjálfan þig!

Þegar okkur líkar ekki við okkur sjálf og lifum jafnvel í djúpri ósátt við okkar eigið sjálf leitum við gjarnan að viðurkenningu fyrir utan okkur. Það er mikilvægt fyrir andlega líðan að láta sér líða vel með sjálfum sér, kostum og göllum. Það hvernig við hugsum um okkur sjálf hefur áhrif á samskipti okkar við aðra. Ef tilfinningar okkar í eigin garð mótast af ósanngjarnri gagnrýni, sjálfsásökunum og mikilli kröfuhörku um eigin getu geta samskipti okkar við aðra litast af því lífsviðhorfi. Aðrir spegla okkur alltaf og koma fram við okkur eins og þeir upplifa spegilmyndina. Sjálfsvirðing er um það hvernig maður metur sjálfan sig og þróast að mestu þegar við erum börn.

Ef við fáum misvísandi skilaboð frá umhverfi okkar í æsku er ekki ólíklegt að við eigum í erfiðleikum með eigin sjálfsvirðingu. Dæmi um hluti sem geta farið úrskeiðis og geta haft mikil áhrif á okkur síðar á ævinni eru skilaboðin um að við séum annað hvort minna virði en aðrir eða við séum miklu betri en allir aðrir.

Sá sem er með litla sjálfsvirðingu á í erfiðleikum með að gefa rými fyrir mistök og eru dómharður á sjálfan sig og getur leitað í öfgafullt mat þar sem hann telur sig annaðhvort minna virði en aðrir eða miklu betri en almennt gengur og gerist. Ekkert pláss fyrir meðalmennsku. Þetta kom svo vel fram í myndinni og Freddie ekki sá fyrsti sem fellur í þá gildru að reyna að bæta sjálfsvirðinguna utan frá, telja sig yfir vini sína hafinn og þurfa ekki á neinum að halda. Hann var kóngurinn en auðvitað þurfti hann á heilbrigðum tengslum að halda eins og allir!

Sjálfsvirðingin eykst þegar við höfum kjark til að taka þátt í lífinu með þá vissu að maður sé mikils virði og hræðumst ekki álit annarra á tilveru okkar. Hvort er fólgin meiri áhætta í því að sleppa því að velta sér upp úr því hvað öðrum finnst eða að sleppa því að huga að eigin tilfinningum, gildum, væntingum og hver við erum í raun og veru?

Það er svo mikilvægi að sleppa því að velta okkur upp úr því hvað öðrum finnst og gefa rými fyrir mistök. Við eigum að huga vel að því hvort við séum upptekin af samanburði við aðra og hvort vellíðan okkar sé bundin við að í kringum okkur séu einstaklingar sem fara halloka í þeim samanburði. Mér líður vel ef ég er ,,betri, sætari, duglegri, flottari, heilbrigðari“ en þú!! Við ættum að vera tilbúin að skoða hvort við notum vinnu, sambönd, áfengi eða annað til að deyfa okkur sem leiðir af sér tilfinningadoða og vanmátt.

Sjálfsvirðinguna verðum við að byggja innan frá. Þrátt fyrir að við getum veitt okkur ýmislegt í lífinu sem veitir bæði gleði, þægindi og bættari stöðu, þá er sannleikurinn sá að það reynir oft ekki á sjálfsvirðingu okkar fyrr en við sitjum uppi með okkur sjálf, strípuð af öllu því sem við töldum vera forsendu þess að lifa góðu lífi. Þá og einmitt þá reynir á það hvort við skynjum okkar innra verðmæti og hvers virði við erum sem manneskjur.

Þetta fannst mér koma ágætlega fram í myndinni og gott ef Freddie Mercury áttaði sig ekki á því.

Kærleikskveðja

Anna Lóa

Mynd: shutterstock.com