Fjölskyldueinelti!
Góðan dag kæru vinir!
Undanfarið hef ég verið með námskeið um samskipti, sjálfstraust og einelti. Eins og alltaf á svona námskeiðum þá spinnast umræður og fékk ég svo góðar spurningu í vikunni sem mig langar að deila með ykkur (því ef einn er að spá í einhverju þá eru það alltaf fleiri). Eftir að hafa farið yfir undanfara eineltis, hvernig það fer fram og hvað er hægt að gera, spyr einn þátttakandinn; er hætta á því að það þróist einelti í fjölskyldum. Svarið er stórt JÁ – og þegar ég var í náminu mínu í sálgæslu var einmitt umræða um fjölskyldueinelti!
Fjölskyldueinelti lýsir sér gjarnan þannig að það er einhver vandi innan fjölskyldunnar sem er ekki tekið á og óskráða reglan er; í þessari fjölskyldu er þetta ekki rætt (því þar með getum við látið eins og þetta sé ekki vandamál)! Yfirleitt eru þetta mál sem þola ekki dagsljósið en geta líka verið einhverskonar áföll sem fólk fær ekki tíma né rými til að vinna úr innan fjölskyldunnar. En svo er það meðlimur innan fjölskyldunnar sem getur ekki þessa þöggun og vill opna á umræðuna í þeirri von að kannski eigi fjölskyldan von á einhverri heilun. Þessi einstaklingur reynir því að koma málum sínum á framfæri og tjáir þá vanlíðan sem fylgir þessu brotna fjölskyldukerfi við aðra innan fjölskyldunnar.
Brotnar fjölskyldur eiga erfitt með sannleikann því hann krefst þess að hver og einn þarf að skoða sjálfans sig, eigin viðbrögð og taka ábyrgð í kjölfarið. Það er bara of mikið og því talar fjölskyldan sig gjarnan saman um að bæla niður þennan „óþægilega“ sem er alltaf með eitthvað vesen. Fjölskyldan kemur sér saman um að viðkomandi sé veikur á geði, alltaf með vesen, illa treystandi og ber hag fjölskyldunnar greinilega ekki fyrir brjósti. Viðkomandi einangrast yfirleitt frá fjölskyldunni og verður ekki hluti af kerfinu lengur eða ákveður að hætta þessu „veseni“ og vera áfram hluti af kerfinu. Það sem er kannski sorglegast er að þetta getur staðið í mörg ár og okkur tekst meira að segja að flytja þetta á milli kynslóða.
Þess vegna segi ég að sjálfstyrking sé lífstíðarverkefni því grunnurinn að því að takast á við erfið samskipti er gott sjálfstraust. Þetta getur skipt öllu máli í aðdraganda eineltis því þeir sem leggja aðra í einelti eru sérfræðingar í að lesa í einstaklinga og reikna út hvert þeir komast með viðkomandi. Það er samt mikilvægt að það komi fram hér að allir virðast geta orðið fórnarlömb eineltis og ég segi gjarnan að textinn í dægurlaginu „ég er rangur maður, á röngum tíma í vitlausu húsi“ á stundum við þarna. Stundum er því haldið fram að þolendur séu einstaklingar sem bera illa hönd yfir höfuð sér, seinþreyttir til vandræða, hlédrægir, viðkvæmir, hæglátir og varkárir. Við skyldum fara varlega með slíkar alhæfingar því stöðugar árásir geta reynst sterkustu einstaklingum erfiðar viðfangs – hvort sem það er innan fjölskyldu eða fyrir utan hana.
Við þurfum að vera tilbúin að skoða okkur sjálf og stöðu okkar innan fjölskyldu, vinahóps, vinnustaðarins og annars staðar þar sem við eigum í samskiptum. Við þurfum að skoða hvort við stöndum yfirleitt með okkur sjálfum og forðumst að ásaka okkur sjálf og aðra fyrir að vera ekki fullkomin. Erum við meðvituð um rétt okkar sem einstaklinga og þú sem ert að lesa þetta, ertu ekki örugglega meðvitaður um að ég og þú eigum sama rétt að góðu lífi en ef við nýtum ekki þann rétt þá er hann til lítils. Erum við yfirleitt meðvituð um að það er okkar að stýra lífi okkar sem felst í því að læra að segja frá skoðunum okkar og setja ágengni annarra mörk.
Þegar ég held námskeið eins og þau sem ég minntist á hér að ofan þá sýni ég gjarnan bút úr myndum til að styðja mál mitt. Atriði úr myndinni As good as it gets er í miklu uppáhaldi hjá mér og sýnir vel hvernig við sem einstaklingar bregðumst oft við erfiðum samskiptum. Dæmi: ég er búin að ákveða að tala við Jón því hann kom svo illa fram við mig. Ég tala í mig kjark og fer til hans. Hann hlustar á mig en tekur svo til máls og tekst á einhvern undraverðan hátt að snúa málinu þannig að ég finn hvernig öryggið lekur af mér og ég nánast bið hann afsökunar á því að hafa truflað hann. Lærdómurinn er enginn og ég hugsa mig tvisvar um áður en ég legg í hann aftur! Brotna kerfið heldur áfram að vera brotið.
Kíkið endilega á myndbandsbútinn úr As good as it gets – en Jack Nicholson túlkar þann ágenga á frábæran hátt og maður finnur vanmátt nágranna hans aukast með hverri sekúndunni. Hann hefur ekkert í hann - fylgist með svipbrigðum hans sem endurspeglar óöryggið. Bútinn má finna hér As good as it gets!
Annars vona ég að helgin verði góð, samskipti ykkar verði sem átakaminnst og þið takið eitthvað með ykkur eftir þennan lestur!
Kærleikskveðja Anna Lóa
Mynd: shutterstock.com