Finndu lausnina - ekki afsökunina!

Ef þú þráir eitthvað nógu heitt þá finnur þú lausnina - annars finnur þú bara afsökunina – sagði Vilborg Arna Gissurardóttir á frábærum fyrirlestri sem ég sótti í fyrra. Er á fullu að koma lífi mínu í réttar skorðu eftir sumarfrí. Þegar ég ...segi réttar skorðu þá á ég við að skoða hvernig ég ætla að haga lífi mínu og takast á við þau verkefni sem ég hef skuldbundið mig til að sinna án þess að upplifa streitu og álag. Eftir að ég las bókina The Power of less hef ég breytt lífi mínu umtalsvert. Í þeirri bók voru hagnýt ráð um hvernig er hægt að einfalda líf sitt og búa til rútínur. Þegar maður býr til þessar rútínur þarf maður að taka sig taki og hafa svolítið fyrir hlutunum en eftir smá tíma verður rútínan öryggisnetið sem heldur manni við efnið. Yfirleitt er líf mitt í ágætum skorðum en þegar það dettur úr takti þá á ég stundum erfitt með að koma mér af stað aftur. Ég hef nýtt mér þessa fyrrnefndu setningu Vilborgar til að hvetja sjálfa mig áfram og þegar ég er föst í að finna afsakanir þá ,,sparka“ ég í rassinn á sjálfri mér. Ég dett stundum í að setja lífið á pásu - en þá ætla ég að gera hitt og þetta seinna þegar ég er í stuði. En málið er að drifkrafturinn kemur með framkvæmdinni og ég get beðið eins og klessa allt mitt líf og vonast til að komast í stuð. Ég get afsakað mig fram og til baka og talið sjálfri mér trú um að þetta gerist allt þegar ég hef meiri tíma, meiri pening, kreppan er búin, búin með nám, byrjuð í öðru, börnin farin að heiman..... osfrv. Þetta líf er ekki æfing fyrir eitthvað annað og betra, þetta líf er það sem það er akkúrat núna. Þessa dagana er ég t.d. að skipuleggja jóga inn í stundatöfluna mína. Finn hvað það gerir mér gott og það þarf ekki mörg skipti þar til ég er komin í rútínuna aftur og þá skil ég ekki hvernig ég hef látið það gerast að bíða eftir því eins og klessa að jógaþörfin hellist yfir mig. Ef þú þráir að bæta einhverju inn í líf þitt sem þú veist að gerir þér gott þá hvet ég þig til að byrja. Það gæti verið að þú þurfir að fórna tíma og pening en ef þetta er eitthvað sem þú veist að gerir þér ekkert nema gott, hvet ég þig til að byrja. Ef þú ert að bíða eftir því að komast í stuð þá get ég lofað þér því að það gerist ekki fyrr en þú byrjar! Stuðningurinn og hvatinn þarf jafnvel að koma frá sjálfri þér því þegar við breytum einhverju þá má alveg búast við því að það séu ekki allir hrifnir af þessu brölti. Í stað þess að í kringum okkur séu aðlilar sem eru bæði hvetjandi og styðjandi þá erum við orðin óþægileg áminning sem dregur oft fram neikvæð viðbrögð hjá öðrum. Þetta á auðvita ekki alltaf við en mundu að þeir sem eru ekki til staðar á hliðarlínunni þegar við þurfum mest á þeim að halda eru oftar en ekki einstaklingar sem mundu gjarnan vilja breyta einhverju í sínu lífi og í stað þess að viðurkenna það og skoða hvaða leiðir sé best að fara – er auðveldara að finna að öðrum. Sá sem er alltaf tilbúinn að gagnrýna aðra er yfirleitt sá sem gagnrýnir sjálfan sig mest. Þú ert sérfræðingurinn í þínu lífi og besta gjöfin sem þú gefur sjálfum þér er að fylgja því sem þú veist að er gott fyrir þig. Ertu með mér !! Lausnarmiðuð kveðja Anna Lóa