Facebook ofneysla!
Hafið þið ekki átt svona AHA- moment í gegnum tíðina – þar sem þið standið ykkur sjálf að því að vera að tala við einhvern en áttið ykkur svo á því að þið eru langmest að tala við ykkur sjálf! Ég átti svona moment í vikunni – en það var þegar ég var að halda fyrirlestur um breytingar. Ég fer í gegnum mikilvægi þess að taka ábyrgð á eigin lífi – hafa kjark til að taka skrefin áfram að því lífi sem maður vill og búa yfir seiglu sem er í raun jákvæð aðlögun eftir að hafa tekist á við erfiðleika.
Breytingar eru erfiðar – því við vitum hvað við höfum en ekki hvað við fáum í staðinn. Þetta hefur komið margoft fram í pistlunum mínum og er eitthvað sem ég þarf sjálf minna mig á reglulega.
Kjarkurinn er svo mikilvægur en þegar ég hugsa um kjark þá er mér efst í huga að takast á við sjálfan sig alla leið, þrátt fyrir að einhverjir hafi misjafnar skoðanir á því hvert maður er að fara! Það er alveg sama hvað þú tekur þér fyrir hendur – fólk hefur alltaf skoðanir á því. Þegar þú ákveður t.d að fara að setja maka og börnum ákveðinn mörk af því að framkoma þeirra gagnvart þér er óásættanleg, standa þau ekki upp og segja ,,það var mikið að þú vaknaðir og ákvaðst að setja okkur mörk“. Nei þau munu mótmæla hástöfum og reyna að telja þér trú um að um sé að ræða ósveigjanleika og frekju af verstu gerð. Þau munu segja setningar eins og ,,þú hefur breyst svo“ og leggja áherslu á að þetta eru ekki breytingar sem þeim hugnast. Þarna er mjög mikilvægt að muna að þegar fólk bregst svona við að þá er það í raun að segja ,,þú ert hætt/-ur að lifa því lífi sem hentaði mér betur.“
Ábyrgðina verðum við alltaf að hafa að leiðarljósi. Það er enginn annar sem getur gefið þér það líf sem þú sækist eftir. Þú verður að vita hvað það er sem þú vilt fyrir þig og stefna þangað. Hér er ekki verið að tala um einhverja sjálfselsku þar sem allt og öllu er ýtt til hliðar til að uppfylla þínar hvatir án þess að taka tillit til annarra. Þarna er verið að tala um að þekkja sjálfan sig nógu vel, gildi sín og persónuleika, þannig að val þitt í lífinu mátist vel við þá þætti. Allir hlutir sem þú eignast geta veitt þér ákveðna ánægju til skamms tíma en gleði til langframa er yfirleitt bundinn við aðra hluti en þá sem eru auðveldlega hægt að komast yfir. Stundum frestum við breytingum með því að kaupa okkur eitthvað nýtt eða deyfa okkur með einhverju sem gerir það að verkum að tilfinningin um að maður þurfi að gera eitthvað, dofnar. Maður getur svo sem farið þannig í gegnum lífið en það segir sig sjálf að líf sem við förum í gegnum hálfdofin er ekki líf sem er lifað til fullnustu.
Þá er komið að seiglunni. Seiglan er svo mikilvæg því eins og kom fram hér ofar þá taka breytingar á okkur. Við búum við ákveðna sældarhyggju í dag þar sem hæfileiki okkar til að bíða minnkar með hraðari svörun á öllum vígstöðvum. Við gætum vanist þessum hraða á þann hátt að við ætlumst til að upplifa ánægju hér og nú og allstaðar og ef við gerum það ekki, þá hljóti eitthvað að vera að. Þá er komið að AHA-momentinu mínu. Mér hefur fundist ég allt of mikið á Facebook undanfarið og er ekki frá því að ég sé orðin pínu háð því. Ég vil nýta mér þennan frábæra miðil til að láta gott af mér leiða en undanfarið hefur mér stundum þótt ansi grunnt á því góða. Ég vil ekki vera háð því að fá viðbrögð – ég vil láta gott af mér leiða og það verður alltaf að vera í forgrunni því annars fer ÉG að þynnast út J
Ég ætla því að breyta um takt. Ég mun setja inn pistla ca 2x í viku en þess á milli tek ég mér frí. Þið sem fenguð hjá mér glósurnar sem ég bauð hér í síðustu viku munið líklega að þar var sér kafli um internetið. Læt hér fylgja nokkra punkta þaðan sem ég hef að leiðarljósi núna. Ég verð að sýna gott fordæmi – annars missi ég trúverðugleika minn :-)
Internetið er ekki eitthvað sem við notum bara fyrir upplýsingaöflun nú til dags - það hefur félagslegt gildi og er afþreying í leiðinni. Við kaupum hluti, hittum fólk, erum í samskiptum, leikum okkur, vinnum, rannsökum ofl. Við setjumst kannski niður við tölvuna til að vinna en gleymum okkur við eitthvað allt annað.
Til að skoða hvar við erum stödd er gott að gera tilraun á sér:
- Taktu viku fyrir þar sem þú minnkar netnotkun þína umtalsvert og reyndu að vinna ,,ótengdur“ eins oft og þú getur
- Settu sjálfum þér reglur varðandi netið - bæði varðandi tölvupóstinn og netið, hversu oft þú ferð þar inn og hversu lengi þú ert þar
- Þegar þér finnst þú verða að fara á netið - reyndu að standast það, vittu til, löngunin minnkar
- Finndu önnur verkefni sem þú nýtir tímann þinn í.
Gefðu þessu tíma - lærðu að njóta!!
Læt þetta duga í bili. Næsti pistill kemur líklega um miðja næstu viku en þangað til ætla ég að halda mig fyrir utan Facebook og vera meira til staðar í raunheimum :-)
Kærleikskveðja
Anna Lóa