Ertu við stjórn?
En af hverju er ég að segja frá þessari bílferð hér? Jú vegna þess að við getum lent í svona stjórnleysi í lífinu sjálfu. Þegar við verðum fyrir áföllum þá upplifum við ákveðið stjórnleysi þar sem við vitum ekki hvernig við eigum að tækla þennan nýja veruleika sem blasir við okkur. Þess vegna er svo mikilvægt að vera meðvituð um að efla sjálfstraustið okkar þegar lífið blasir við okkur því þá erum við betur í stakk búin til að ná að landi þegar verkefnin skella á okkur. Þegar við upplifum streitu, veikindi, áföll eða miklar breytingar á lífi okkar, þá hefur það áhrif á sjálfstraust okkar og þá er svo mikilvægt að vera ágætlega nestaður. Ósjaldan hef ég fengið fólk til mín (og verið þar sjálf) sem upplifir að það sé búið að týna sjálfu sér og segir gjarnan; ég bara skil ekki hvað gerðist, hvert fór ÉG!
En það eru ekki bara erfiðleikar og áföll sem hafa áhrif á okkur. Aðstæður daglegs lífs eru góð vísbending um hvar við erum stödd og gott að vera meðvitaður um hvort maður sé við stjórn eða hvort „tækið“ sé á sjálfstýringu og sé á leið með okkur inn á hættusvæði. Það er mikið tala um kulnun í dag og því er mikilvægt að maður sé vakandi varðandi sjálfan sig því kulnun er ekki eitthvað sem gerist allt í einu. Þetta er ástand sem á sér aðdraganda og þrátt fyrir að það sé ekki alltaf hægt að grípa inn í þá er það hægt í mörgum tilvikum og þá er sjálfsþekkingin svo mikilvæg.
Ég er svo meðvituð um það í dag hver eru rauðu ljósin mín þegar ég er að upplifa mikla streitu. Ég get alveg sagt ykkur það að ég þoli streitu ágætlega en svo einn daginn vakna ég og er bara alls ekki besta útgáfan af sjálfri mér. Get jafnvel orðið ógnandi í fasi, nota líkamann til að leggja áherslu á hversu brjálað er að gera hjá mér. Þá labba ég hratt, tala hátt og dæsi þess á milli – já svoldið eins og „hershöfðingi“ í skrúðanum sínum. Get alveg dottið í að haga mér eins og það sé ENGIN leið út úr þessu og auðvita er það HINUM að kenna – þeim sem komu mér í þessa stöðu (atvinnurekandi, skjólstæðingur, fjölskylda, vinir, samstarfsfélagar eða bara helv.. ríkisstjórnin).
Tek ekki ábyrgð á því hver staðan er og ef ég hitti Önnu Lóu í Hamingjuhorninu sem reynir að benda mér á að ég þurfi að setja sjálfri mér og öðrum mörk, missi ég mig og alls ekki útilokað að ég láti hana heyra að sumar stéttir geti bara alls ekki sett mörk en auðvita skilur hún það ekki – fljótandi um í hamingjuskýinu sínu meðan aðrir sinna ALVÖRU vinnu. Svo leita ég að fólki sem er tilbúið að fóðra þessa púðurtunnu og trúið mér, það eru heilu lagerarnir af púðri á þessum sprengjusvæðum. Þarna vantar upp á öryggið og stjórnleysið algjört.
En ég er nú ekki alltaf hershöfðinginn – nei stundum er ég heilmikill friðarsinni í svona aðstæðum, já úr hófi fram. Þá vil ég forða mér frá sprengjusvæðinu því ég finn að það hefur ekki góð áhrif á mig en verð pínulítið fórnarlamb stríðsátaka og læt lítið fyrir mér fara. Hershöfðingjarnir marsera í kringum mig og ég verð hálf niðurlút í fasi, hikandi og til baka og segi JÁ út í það óendanlega. Ég verð ótrúlega pirruð vegna ágengni annarra en segi það ekki við þá – það gæti allt sprungið. Svo ég segi bara frá líðan minni við hin fórnarlömbin – og er hluti af því að búa til „við og þið“ menningu innan vinnustaðarins eða í fjölskyldunni. Á þessum stað á ég erfitt með að tala um tilfinningar mínar, upplifi að aðrir hafi einhvern veginn meiri rétt en ég og segi ég gjarnan „mér er alveg sama“. Ég upplifi að það kunni bara alls engin að meta mig og velti fyrir mér hvort kröftum mínum væri ekki betur varið annars staðar (margir sem hætta í vinnu hér). Þegar maður er á þessum stað er öryggið fjarri manni og upplifunin er rétt eins og maður sé lauf í vindi sem feykist til og frá eftir því sem vindurinn blæs.
Þegar ég er með sjálfstraustið í lagi og næ að halda stjórn þá forðast ég að ásaka mig og aðra og er meðvituð um eigin rétt í þessu lífi. Þá segi ég frá skoðunum mínum og þörfum og geri mér grein fyrir líkamlegum skilaboðum. Geri mér grein fyrir að ég hef rétt á að láta tilfinningar mínar í ljós og þarf ekki að afsaka þær. Ég hef líka rétt á því að gera mistök, enda tek ég afleiðingunum og má skipta um skoðun þrátt fyrir að það henti ekki öllum. Ég hef rétt á því að neita að taka ábyrgð á vandamálum annarra og ég hef allan rétt á því að vera óháð elsku annarra – læt ekki velþóknun né vanþóknun annarra mæla manngildi mitt. Þegar ég er í örygginu mínu þarf ég að virða eigin mörk og annarra og síðast en ekki síst, vera meðvituð um að það er ég sem er við stjórnvölinn í lífi mínu.
Kærleikskveðja,
Anna Lóa
Mynd: shutterstock.com