Ertu þessi týpa??
Ef ég ætti að koma með eina setningu varðandi hamingjuna þá væri það: finndu tilgang og merkingu með lífi þínu. Man þá tíð sem mér fannst ég ótrúlega vanþakklát manneskja því ég átti svo margt en hver einasta taug í líkamanum öskraði að það vantaði eitthvað - þetta tómarúm sem ég vissi ekki hvernig ég ætti að fylla. Þegar ég hafði orð á þessari vansæld minni var ég oft minnt á að ég væri í starfi sem margir aðrir mundu gjarnan vilja vera í, ætti húsnæði og bíl og tvö heilbrigð börn - hvað vildi ég eiginlega meira. Þegar ég leitaði eftir stuðningi fékk ég mismunandi viðbrögð. Þessi eru ógleymanleg en á þessum tímapunkti var ég að bíða eftir svari hvort ég kæmist inn í háskólanám sem mig dreymdi um og það var ÞREKVIRKI bara að sækja um: bíddu Anna Lóa, ert þú bara aldrei ánægð, ertu týpan sem þarf alltaf eitthvað meira!!!
Það var tómarúm innra með mér og ég fann svo vel að mig vantaði tilgang og merkingu með lífi mínu. Mig vantaði eitthvað til að stefna að - og þrátt fyrir að finna þetta svo vel innra með mér átti ég erfitt með að koma þessum tilfinningum í orð og mig vantaði klárlega stuðning frá umhverfinu. Mín reynsla er sú að hvati sem byggist á peningum, völdum, frægð eða frama sé samþykktur - en hvati sem byggist á því að finna merkingu og tilgang með lífi sínu þykir oftar en ekki óraunhæfur og í besta falli rómantíseraðar væntingar þeirra sem átta sig ekki á hvað það er sem skiptir máli J
Það er talað um að grunnurinn að hamingjunni liggi einmitt í því að finna merkingu og tilgang með lífi sínu. Ef þú stendur í þeim sporum að finna að þú þarft að breyta einhverju til að finna merkingu og tilgang þá skaltu treysta á sjálfan þig í þessu ferli. Af hverju er ég að tala um þetta hér - jú af því að ég finn að eftir að ég fór að vera duglegri við að fylgja hjartanu er ég sannari í öllu sem ég tek mér fyrir hendur, faglega jafnt sem persónulega. Þegar við veljum líf okkar þurfum við að vera meðvituð um að það sé vegna þess að við erum að fylgja hjartanu, en ekki vegna þess að samfélagið segir okkur að ,,þetta“ sé rétta valið og okkur beri því að haga atferli okkar á ákveðinn hátt miðað við það.
Það krefst kjark af okkar hálfu að velja okkar líf fyrir okkur. Það þýðir að við þurfum stundum að velja okkur frá hlutum, fólki, aðstæðum, sem AÐRIR telja að passi okkur en hver einasta taug í líkama okkar segir að sé EKKI fyrir okkur. Það krefst kjark af okkar hálfu að viðurkenna að eitthvað sem átti einu sinni við eigi ekki við lengur og því sé komin tími til að kveðja það gamla. Við þurfum að muna að ef einhver segir: ert þú týpan sem þar alltaf eitthvað meira - þá er þessi sama manneskja að segja: æ veistu, þú ert ótrúlega óþægileg áminning um að við berum sjálf ábyrgð á því að finna merkingu og tilgang með lífi okkar!!
Lífið snýst ekki um að finna merkingu og tilgang sem aðrir samþykkja - snýst um að finna merkinguna og tilganginn fyrir þig og þá blómstrar þú og allir í kringum þig njóta góðs af!
Veldu líf þitt!
Gangi þér vel J
Anna Lóa