Ertu ryksuga?

Sjáið fyrir ykkur þrjú systkini spjalla um æskuna þar sem það yngsta systirin segir: munið þið þegar við fengum okkur alltaf eitt mjólkurglas á kvöldin og þegar mamma hellti mjólk í glösin fékk hún sér alltaf einn sopa til að athuga hvort það væri í lagi með mjólkina! Bróðirinn horfir á systur sína og segir svo; athuga hvort það væri í lagi með mjólkina, huh, hún fékk sér sopa því hún hellti alltaf aðeins of mikið í glasið. Elsti bróðirinn horfir á systkinin sín og segir; hvaða vitleysa er þetta, mamma fékk sér bara sopa af því að hana langaði í smá mjólk og auðvelt að stela sér einum og einum sopa hjá okkur þremur*!
Skynjun okkar á atburðum hefur oft meiri áhrif en atburðurinn sjálfur og þegar okkur líður ekki nógu vel þá tekur skynjun okkar mið af því. Fólk sem er að upplifa kvíða og vanmátt (eins og margir eru að gera í dag) þarf að vera meðvitað um þetta og hafa kjarkinn til að spyrja fyrst; hvað er í gangi hjá mér núna!
Við eigum öll sögur sem við skilgreinum okkur jafnvel út frá og erfiðasti hluti sögunnar er ekki endilega atburðurinn sjálfur, heldur það sem við bætum við sögurnar. Gott dæmi er að mæta á nýjan stað og í óörygginu lesa í hegðun annarra á staðnum í stað þess að vera uppteknari af því að ná í eigin öryggi. Hver kannast ekki við að segja hluti eins og; hún er bara hætt að heilsa manni! á sama tíma og maður gefur ekkert færi á sér og sýnir það ómeðvitað til að fóðra eigin sögu. Ef við erum óörugg eða líður illa hið innra þá erum við eins og ryksugur á umhverfi okkar og allar líkur á því að við lesum kolrangt í aðstæður.
Hvað gerir maður í slíkum aðstæðum? Jú við þurfum að vera tilbúin að skoða hugsanir okkar og hvar við erum stödd þegar kemur að þeim. Það getur vel verið að við höfum upplifað höfnun eða séum að takast á við einhverja aðra áskorun en það sem er erfiðast við slíkar aðstæður er þegar við látum þær skilgreina hver við erum. Þegar sjálfsvirðingin er ekki mikil eða öryggið er ekki til staðar erum við ofur upptekin af áliti annarra og þurfum svo að heyra að við séum í lagi og það eru eðlileg varnarviðbrögð. Stundum þurfum við að búa okkur til sögu til að komast í gegnum erfiðar aðstæður; æ þetta er fyrir bestu, var aldrei ætlað að endast hvort sem er. Hann/hún er ekki fyrir mig! Ég á betra skilið! Ég var aldrei metin í þessari vinnu. Við dettum í að vera 10 ára aftur þar sem við viljum að einhver kyssi á bágtið og segi; þetta var ekki þér að kenna – það var hinn!
Get tekið sem dæmi að þegar ég var að byrja að halda fyrirlestra og var enn í óörygginu að þá fannst mér það merki um að ég væri ekki að standa mig ef fólk geispaði, eða var alltaf að kíkja á klukkuna svo ég tali nú ekki um ef það dottaði. Það má vel vera að fólki hafi fundist fyrirlesturinn leiðinlegur en sú hugsun hjálpaði mér bara ekki neitt í aðstæðunum, svo ég lærði að bjarga mér (varnarviðbrögð) með því að hugsa; hum, hann hefur sofið illa/hér er orðið loftlaust/nú er tími til að taka smá pásu o.s. frv. En svo þegar fyrirlesturinn var búinn þurfti ég svo að skoða þrennt; aðstæðurnar, fólkið sem ég var að þjónusta (leggja t.d. fyrir mat) og síðast en ekki síst, mig. Gat ég gert betur, mátti fyrirlesturinn vera þéttari og hvernig var ég stemmd þennan dag? Það hjálpar mér ekkert að hugsa „þetta var bara erfiður hópur“ eða „ég er glataður fyrirlesari“.
Við getum alveg orðið föst í samsæriskenningum varðandi líf okkar; það gengur ekkert upp hjá mér – af hverju lendi ég alltaf í þessu, ég er ótrúlega óheppin með fólk, aðstæður o.s.frv. Ef við erum tilbúin að skoða okkur sjálf, hugsanir okkar og af hverju við erum að fara í gegnum svipuð verkefni aftur og aftur, er ekki ólíklegt að með tímanum sjáum við hlutina í öðru ljósi, tökum ábyrgð á okkur sjálfum og hegðun okkar og þar með breytast viðhorf okkar til þess sem er í gangi í lífi okkar. Við látum söguna ekki skilgreina okkur heldur lítum til baka og segjum; hum, ok ég var þá á þessum stað þarna! Ef við aftur á móti ætlum að sitja á rassinum og bíða eftir því að himnarnir opnist og færi okkur ævintýralega sögu með dásamlegum endi af því að við eigum það svo skilið, þá getur sú bið orðið ansi löng.
Sjáðu fyrir þér einhverjar erfiðar aðstæður sem þú hefur nýlega farið í gegnum í lífinu. Er eitthvað í þessum aðstæðum sem þú þarft að átta þig betur á eða það sem er kannski mikilvægara, eru einstaklingar sem tengjast þessum aðstæðum sem þú ert kannski að misskilja? Hvort var mamman í sögunni hér í byrjun að fá sér sopa af mjólkinni í kærleika, vegna þess hún var varkár eða hreinlega þyrst? Við lesum ekki hugsanir annarra en gefum okkur hluti án þess að spyrja um þá og þess vegna getum við fengið margar útgáfur af sömu aðstæðum. En ertu líka tilbúin að skoða þig í þessum aðstæðum. Hvernig leið þér þegar þú varst að fara í gegnum þetta tímabil og gastu gert hlutina öðruvísi?
Til þess að læra af aðstæðunum þurfum við að takast á við óreiðuna sem fylgir svona tímabilum og leyfa okkur að upplifa vanmátt og óöryggi á sama tíma og við losum okkur við samsæriskenningarnar – það er ekki eitthvað samsæri í gangi um að „ná þér“.
Við þurfum að taka meðvitaða ákvörðun um að vilja læra af aðstæðum okkar til að stækka sjálf sem einstaklingar sem þýðir yfirleitt að skoða hvaða hugsanir búa þar að baki (yfirleitt eldgamlar og úreltar hugsanir). Slík ákvörðun krefst mikils kjarks af okkar hálfu en er alltaf þess virði.
Kærleikskveðja!
Anna Lóa
*Elisabeth Gilbert.
Mynd: pexels.com