Ertu með hálfkláraða sögu!

Nýt þess að vera í sumarfríi. Bara þessi litlu hlutir eins og að geta farið seinna að sofa, dólað sér yfir morgunkaffinu, sinnt vinum og fjölskyldu aðeins betur og notið náttúrunnar. Ég er ein af þeim sem elska Ísland á sumrin (svona yfirleitt) og veit fátt fallegra en bjartar sumarnætur úti í íslenskri náttúru.
En ég elska líka að lesa aðeins meira en einhverra hluta vegna þá geri ég minna af því í dag en ég gerði hér áður. Held það hafi eitthvað með það að gera að í dag er allt hraðsoðið ofan í okkur og við erum hætt að gefa okkur tíma til að lesa eitthvað sem tekur tíma. Hef ósjaldan fengið athugasemdir vegna pistlaskrifa minna – hvort ég geti ekki haft þá styttri. Erum á góðri leið með að þjálfa hugann í að vera frasa-móttækistöð þar sem við sleppum því að fara á dýptina.
En af hverju er ég að tala um þetta – jú af því að lestur góðra bóka er eins og að eiga tíma með góðum vini og þessa dagana er ég að lesa þriðju bókina eftir „vinkonu“ mína, Brené Brown. Langar að deila með ykkur úr bókinni sem heitir Rising strong. Brené hefur hin síðari ár mikið verið að skoða hvernig við getum lifað af öllu hjarta eða wholeheartedly.
Það sem mér finnst svo dásamlegt við skrifin hennar Brené er hvernig hún talar um vanmátt okkar og viðkvæmni. Upplifum þetta öll og þurfum að átta okkur á að þetta er eðlilegur en ekkert síður mikilvægur hluti af lífinu. Það sem skiptir höfuðmáli er hvernig við bregðumst við. Þannig sé ofur eðlilegt að upplifa ákveðin vanmátt í nýjum aðstæðum en þá reynir á að vera kjarkmikill og takast á við verkefnið þrátt fyrir að vita ekkert hver útkoman verður. Ef við gerum einungis það sem við erum örugg með að takist vel förum við á mis við svo margt í lífinu.
Við gerum öll mistök – þeir kjarkmiklu eigna sér mistökin, skoða hvernig væri mögulega hægt að gera hlutina öðruvísi og halda svo áfram. Þegar við erum að takast á við ný verkefni gæti verið freistandi að vilja fara til baka í gamla „öryggið“ en við verðum að hafa í huga að það breyttist allt þegar við tókum fyrsta skrefið. Gamla öryggið (staðan, makinn, bærinn ofl) munu aldrei vera eins því kjarkurinn sem fólst í því að stíga út breytir manni og þar með upplifun okkar á lífinu. Það er ekki hægt að endurtaka það sem var á nákvæmlega sama hátt – haltu áfram. En það er svo eðlilegt að þegar við stöndum í miðri straumharðri ánni og vitum ekki hvort við náum að bakkanum að við efumst á sama tíma og það er einmitt þarna sem við lærum svo mikið.
Þegar við erum að styrkjast (Rising strong) er ferlið það sama, hvort heldur við erum að tala um einkalífið eða starfsþróun. Við þurfum að takast á við hluti eins og eftirsjá, fyrirgefningu og jafnvel sorg. Skiptir engu máli þótt breytingarnar séu augljóslega þær „réttu“ fyrir okkur – við þurfum að gera ráð fyrir að þeim fylgja tilfinningarússibani sem krefst mikils af okkur.
Ef við sjáum hvert og eitt okkar lífið sem sögu þá vitum við að í öllum góðum sögum er upphaf, miðjan þar sem upp koma áskoranir og endir. Mörg okkar neita erfiðum hluta sögu okkar til að líta út fyrir að vera heil, vera samþykkt eða falla betur inn. Sannleikurinn er sá að við erum ekki heil fyrr en við erum tilbúin að skoða alla söguna (reynsluna), tengja saman alla litlu punktana (líka þá erfiðu) og viðurkenna að þetta er sagan okkar og hún er alveg jafn mikilvæg og allar aðrar sögur.
Málið er að annað hvort gengst ég við sögunni minni og eigna mér minn sannleika eða ég gef öðrum valdið yfir sögunni. Ef ég ætla að eigna mér hana verð ég að þola óþægindi á meðan ég „skrifa“ hana en í mínum huga er þetta alltaf spurning um að vera með hálfkláraða sögu og þægindi eða hafa kjarkinn og gera þetta almennilega!
Brené segir að þeir sem lifi af öllu hjarta áveði að gangast við eigin sögu og eigna sér hana en aðrir lifi fyrir utan söguna sína í sífelldri leit að ytri viðurkenningu. Þannig sé það á valdi ytri áhrifa hvernig við upplifum söguna okkar og líf okkar gengur meira eða minna út á að gera öðrum til hæfis á sama tíma og við fjarlægjumst aðalpersónuna í sögunni hægt og sígandi.
Ég mun halda áfram að lesa og ég mun svo sannarlega halda áfram að deila.
Kærleikskveðja frá mér,
Anna Lóa
Mynd: shutterstock.com