Ertu að reyna - eða ertu að gera!

Ég hef stundum sagt að ég sjái á manneskju sem þráir nýtt eða öðruvísi líf, hvort af því verði. Kannski er réttara að segja að ég heyri það því orðræðan skiptir þarna miklu. Hvernig tölum við um okkur og líf okkar. Teljum við virkilega að líf okkar breytist af því að aðrir hafa það á valdi sínu að breyta því eða erum við tilbúin að takast á við þær breytingar sem við viljum sjá í lífi okkar. Stundum förum við á milli aðila og fáum ráð en gerum ekki neitt. Stundum lesum við allt sem við komumst yfir en gerum ekki neitt. Stundum erum við föst í hlutverki sérfræðingsins í lífi annarra en erum að bíða eftir rétta tímanum til að takast á við eigið líf. Segjum sem svo að þú værir að gifta þig og presturinn spyr þig hvort þú ætlir að vera með manneskjunni í blíðu og stríðu og þú svarar: ég skal REYNA! Ekki mjög sannfærandi! Ég ætla að reyna að eiga góðan sunnudag og fara í göngutúr, svo ætla ég að reyna að fara í afmæli hjá frænku og svo ætla ég að reyna að búa til mat og reyna svo að klára heimaverkefnið mitt! Nei vitið þið ég ætla að eiga góðan sunnudag, fara í afmæli og búa til góðan mat og klára heimaverkefnið í kvöld. Frestun og afsakanir halda aftur af okkur og gera það að verkum að við erum ekki að upplifa það líf sem okkur langar að eiga og stundum snýst þetta um þessa hversdagslegu hluti. Við getum átt tímabil þar sem við þurfum að draga okkur aðeins í hlé og ná í orkuna okkar og öryggið, en svo gerist það nú oft að við drögum okkur of lengi frá því lífi sem okkur langar að lifa og eigum í handraðanum alls konar afsakanir um af hverju við getum ekki tekist á við það sem við þurfum að takast á við til að komast áfram. Ef þú þráir eitthvað nógu heitt finnur þú leiðina – annars finnur þú bara afsökunina. Lífið er vinna – og þegar við slökum á of lengi getur verið erfitt að takast á við verkefnin aftur en við komumst ekki hjá því. Þú þarft ekki að ávinna þér neinn rétt til að öðlast það líf sem þig langar í – þú verður einungis að trúa því frá innstu hjartarótum að þú eigir það líf skilið. Lífið sem þig langar að eignast er ekki undir öðrum komið – það er undir þér komið og mundu að umhverfið speglar þig alltaf. Byrjaðu á því að ákveða hvað það er sem þú vilt gera og búðu þér svo til ramma eða mörk sem þú ætlar að fylgja og treystir þér að fara eftir. Byrjaðu smátt og bættu svo við eftir því sem þér vex öryggið og ásmegin. Þú þarft að finna þinn hraða og passa að vera ekki fastur í viðmiðum við aðra. Þrátt fyrir að við komumst hraðar yfir með því að hlaupa þá þurfum við stundum að gefa okkur tíma svo við missum ekki af mikilvægum upplýsingum um okkur sjálf á leiðinni. Þetta ferðalag snýst nefnilega um að skoða sjálfan sig og tilfinningar sínar, viðurkenna hver við erum og fyrir hvað við stöndum og hvaða skref við þurfum að taka til að verða besta eintakið af okkur. Á þessu ferðalagi verður ásetningur þinn að vera á hreinu – þ.e. að þú ert að gera þetta því þú vilt bæta líf þitt en ekki með þá von í brjósti að þá breytast allir í kringum þig, þá ertu farin að skilyrða. Það er ekki á þínu valdi að breyta öðrum, en þar sem umhverfið speglar þig þá er ekki ólíklegt að ýmislegt breytist þegar þú lifir í sátt við þig. Afleiðingar þess að þú veljir gott og heilbrigt líf fyrir þig eru oft góð og heilbrigð samskipti við aðra!! Kærleikskveðja! Anna Lóa