Ertu að fara á límingunum!

Veistu Anna Lóa, það er bara svolítið eins og allt og allir séu bara að fara á límingunum!
Heyri þetta allt of oft en ég hef heimsótt fjöldann allan af fyrirtækjum og stofnunum og haft gaman af en það sem flestir tala um er mikið álag. Það tengist ekki einum starfsvettvangi frekar en öðrum. Það eru bara allir að tala um mikið álag. Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að fara að skoða sem þjóð því annars förum við á límingunum – öll!!
Þegar við erum undir álagi þá verða öll samskipti erfiðari. Þannig má rekja samskiptaerfiðleika í vinnu og fjölskyldu til aukins álags og könnumst við örugglega flest við þá tilfinningu að vera að missa tökin að einhverju leyti. Þetta gæti líka skýrt andstyggilegheit og ljótt orðbragð á samfélagsmiðlum og þennan undirliggjandi pirring sem er einhvern veginn allsstaðar (ok víða). Veit ekki með ykkur en mig langar svo að hafa lífið meira kósý og kærleiksríkt.
Við þurfum að skoða að hve miklu leyti væntingar annarra hafa áhrif og hvort það sé tilhneiging okkar að reyna að uppfylla þær væntingar. Með tíð og tíma áttum við okkur flest á því að samanburður við aðra er okkur yfirleitt skaðlegur. Þekkjum við okkur sjálf og hvenær við erum að upplifa álag – líkamlega og andlega? Þekkjum við rauðu ljósin okkar og að hve miklu leyti hefur þetta með sjálfsmynd okkar að gera?
Sjálfsmyndin er eins og handrit sem ákvarðar atferli okkar og viðmót, hverjum við bindumst trúnaðarböndum, hvað við reynum að gera og hvað við forðumst; allar hugsanir okkar og athafnir eiga sér rót í sýn okkar á okkur sjálf. Þegar sjálfsmyndin okkar er óstöðug getum við upplifað að við séum annaðhvort miklu betri en aðrir og sýnt af okkur hroka eða við séum mun síðri sem getur leitt af sér mikla vanlíðan. Hvorutveggja er vont og er oft grunnur að erfiðum samskiptum. Staðreyndin er því miður sú að fólk hættir gjarnan á vinnustað vegna þeirra upplifunar að vera lítils metin en án þess að það hafi verið málið í raun.
Þegar okkur líður ekki nógu vel þá dettum við í sjálfhverfuna og lesum kolrangt í hlutina. Þannig erum við að detta í tilfinningalegan rússíbana vegna einhvers sem hefur ekkert með okkur að gera. Ef þú lendir þarna þá er hægt að gera ýmislegt eins og:
a) byrjaðu á því að spegla þig og spyrja þig…hvað er í gangi hjá mér núna
b) vertu alltaf tilbúin með eina sjálfhverfu sögu í huganum til að grípa til. Ég á nokkrar svona sögur sem ég gríp til þegar ég er á toppnum á rússíbananum og hugsanaskekkjunum
c) deildu með einhverjum sem þú treystir – um leið og þú segir þetta upphátt þá heyrir þú mjög líklega hvar þú ert stödd/staddur og ef ekki þá hjálpar hlustandinn þér að leiðrétta söguna (í versta falli lemur þig í hausinn).  
Stundum gerum við eitthvað sem okkur langar ekki til að gera í þeirri trú að við séum að halda friðinn! Sá sem á í erfiðleikum með að standa með sjálfum sér getur átt erfitt með átök og sættir sig jafnvel við óréttlæti í stað þess að takast á við erfiða hluti. Þannig getur einhver manneskja verið búin að tjalda inni í hausnum á okkur en við treystum okkur ekki til að segja upp leigunni! Ertu að eyða tíma og orku í fólk sem væri betur nýtt í aðra og uppbyggilegri hluti!
Þú þarft að byrja á því að skoða að hve miklu leyti þessi manneskja skiptir þig í raun máli. Þarftu virkilega að vera að nota mikla orku í hana – getur þú sýnt af þér kurteisi í samskiptum og tekið frá þitt rými fyrir þig? Skoðaðu hverjum þú ert að bjóða inn í rýmið þitt og hvort það sé fólk sem þú vilt hafa þar. Það er hægt að setja mörk og ákveða hversu mikið rými fólk fær að taka og mundu, fólk speglar okkur alltaf. Sá sem er að reyna að troða sér inn í rýmið þitt heldur, einhverra hluta vegna, að honum takist það. Mundu – við getum aftengt okkur án þess að loka með látum (það þarf ekki alltaf að skella hurðum). Þýðir í raun að aftengja sig frá því sem þráhyggja okkar beinist að, og þeirri staðreynd að við berum sjálf ábyrgð á okkar lífi og við ætlum að leyfa öðrum að gera hið sama.
Þegar okkur líður vel verður lífið auðveldara og veröldin okkar verður spegilmynd af okkur sjálfum. Þegar okkur er í nöp við okkur sjálf er okkur í nöp við aðra en áttum okkur ekki alltaf á því og erum viss um að allt breytist þegar „hinir“ breytast. Sjálfsmyndin hefur svo mikið að segja og ákvarðar að svo miklu leyti hvernig við lifum lífi okkar. Því skiptir svo miklu máli að breyta neikvæðu sjálfsmati í jákvætt. Greina neikvæðu þættina og umbreyta þeim.
Staðreyndin er sú, að það er öllum holt að skoða sig þegar kemur að samskiptum og samböndum svona almennt og muna að það fyrsta sem fer í miklu álagi er hæfileiki okkar til samskipta. Hvar get ég bætt mig og hverjar eru væntingar til fjölskyldu, vina og samstarfsfélaga. Hverjar eru væntingar annarra til mín og að hve miklu leyti er ég að reyna að uppfylla þær? Skoðaðu hvers þú þarfnast núna, æfðu þig í að setja mörk, æfðu þig í að segja nei án þess að fá samviskubit og kannski það mikilvægasta – stattu með sjálfum þér.
Vona að helgin þín verði góð! 
Kærleikskveðja Anna Lóa
Mynd: shutterstock.com