Ertu að bíða eftir kórónunni?
Hef talað um það áður að ég hef átt tímabil í lífi mínu þar sem ég bíð - já þá bíð ég eftir að líf mitt breytist og þá aðallega að aðrir breyti því. Þá hef ég jafnvel talið sjálfi mér trú um að með því að skila vel unnu verki muni einhver taka eftir því og verðlauna mig í lokin. Ég hef jafnvel ekki verið með það alveg á hreinu hvað ég vil - það á hinn aðilinn að vita, sá sem verðlaunar mig fyrir vel unnin störf, sá sem færir mér kórónuna!
Svo var það einn daginn, já þegar ég var búin að vera mjög þolinmóð og lítið gerðist, að ég áttaði mig á því að það væri ég, og eingöngu ég, sem gæti stjórnað því hvernig líf ég vildi og hvernig ég ætlaði að mér að öðlast slíkt líf. Ég þurfti að vera tilbúin til að taka áhættu, ögra sjálfri mér og biðja um það sem ég vildi fyrir mig. Um leið og ég tel mig ekki hafa valdið til að breyta eigin lífi er ég að missa valdið yfir eigin lífi - svo einfalt er það. En af hverju þessi bið - af hverju vissi ég ekki hvað ég vildi?
Það er ekkert öðruvísi með mig og marga aðra, biðin tengist oftast ótta. Þessi ótti getur komið fram á ýmsa vegu og er hluti af þeim hindrunum sem við stöndum frammi fyrir, bæði í starfi og einkalífi. Ótti við að vera hafnað eða vera ekki vel liðin, gerir það að verkum að fólk velur sig frá persónulegum samskiptum. Nú svo er það ótti við að taka rangar ákvarðanir eða draga að sér neikvæða athygli og vera dæmdur í kjölfarið. Svo er það óttinn við að færast of mikið í fang og það allra versta - að mistakast. Svo er það hin heilaga þrenning okkar kvenna; óttinn við að vera slæm eiginkona/móðir/dóttir og vera dæmdar í kjölfarið.
Konur sem hafa náð árangri eru oft dæmdar hart af samfélaginu og oftar en mig langar að muna hef ég heyrt talað um þær sem kuldalegar og stífar konur sem gefi lítið af sér. Vá held að ég hafi alveg sagt svona hluti sjálf - en líklega var auðveldara að grafa undan "þeim" en gangast við eigin ótta. Staðalmyndir eru óþolandi og eru ein aðal hindrun þess að við tökum skrefin í átt að því lífi sem við viljum. Á meðan við teljum okkur EIGA að vera einhvern vegin og hinsegin gerist ekkert. Hlutirnir fara fyrst að gerast þegar ÞÚ veist hvernig líf þú vilt og stefnir þangað.
En það er alveg sama hvort kynið við erum - til þess að koma af stað breytingum í lífi okkar þurfum við að stíga inn í óttann. Aðeins þannig getum við leitað eftir meiri árangri í starfi og einkalíf og notið þess að hafa frelsi til að velja. Við þurfum að gangast við óttanum og halda áfram þrátt fyrir hann, hafa kjark til að taka skrefin áfram þrátt fyrir að vita ekki alveg hvert þau taka okkur. Ég kalla þetta kjarkæfingar - en kjarkur þýðir ekki að vera óttalaus, frekar að taka skrefin þrátt fyrir óttann.
Það skiptir máli að vera sáttur við það sem við höfum í dag en á sama tíma er nauðsynlegt að vilja stöðugt vera að vaxa og þroskast. Gæðin á lífi okkar er háð þeim kjarki sem við höfum til að takast á við breytingar, stíga skref út fyrir þægindahringinn því það er leiðin að betra sjálfstrausti sem við þurfum að huga að alla okkar ævi. Betra sjálfstraust er svo grunnurinn að meiri lífsgæðum svo það er til mikils að vinna.
Ef þú ert að bíða eftir réttu vinnunni, stöðuhækkuninni, betri launum, draumaprinsinum, rétta húsinu, lottóvinningnum og guð má vita hverju, skaltu aðeins staldra við og hugsa hlutina upp á nýtt. Ef þú telur að með því að haga þér á ákveðinn hátt, sért hógværðin uppmáluð og vandar þig í hvívetna, muni þú uppskera ríkulega, skaltu aðeins hugsa þinn gang. Ef þú veist ekki hvað þú vilt þá getur þú bara alls ekki ætlast til að það sé einhver þarna úti sem sé með lykilinn að leyndardómnum - hamingjunni þinni. Þrátt fyrir að maður mæli auðvita með því að vanda sig í lífinu, koma vel fram við alla og þroska með sér góð og göfug gildi, þá útilokar það ekki hitt.
Ef þú ert að bíða eftir kórónunni á hausinn á þér - þá get ég alveg lofað þér því að þú ert eina manneskjan sem hefur vald til að ná í þessa kórónu.
Mundu : um leið og þú telur þig ekki hafa valdið til að breyta eigin lífi - ertu búin að missa valdið til að breyta eigin lífi.
Gangi þér vel!!
Anna Lóa