Er of mikið að gera hjá þér - aftur?

Við erum ekki alltaf að tengja saman: skökk sjálfsmynd – fullkomnunarárátta – kvíði! Förum jafnvel í gegnum lífið með þá vissu að meðan maður hefur fullkomna stjórn á öllu, eða það líti þannig út, þá sleppi þetta allt saman fyrir horn. Þegar átök og erfiðleikar sækja okkur heim, bítum við saman jöxlunum, setjum hnefann á loft og keyrum þetta í gegn. Þegar við finnum að við erum að missa stjórn og erum ekki að ná utan um alla hluti gerir streitan vart við sig og hvað gerist þá í samfélagi viðmiða – við normaliserum streitu. Við sendum út þau skilaboð að það sé eðlilegt að allir hafi of mikið að gera, að það felist ákveðin dyggð og dugnaður í því að gera allt 100% og hver vill ekki vera í vinningsliðinu?

Við erum vel til þess fallin að takast á við streitu í ákveðin tíma en viðvarandi streita þar sem við verðum vör við það að við upplifum eirðarleysi þegar það róast hjá okkur – eru merki sem við ættum að taka alvarlega. Staðreyndin er sú að aldrei áður erum við að horfa upp á jafn marga keyra sig í þrot. Í samfélagið sem leggur svo mikla áherslu á dugnað, styrk, hæfni og virkni að meðalvegurinn er þurrkaður út og fólk er annað hvort með eða ekki, verður þetta alltaf vandi. En þetta er ekki bara íslenskur vandi, nei þetta er alheimsvandi og að einhverju leyti af því að við erum miklu meira í viðmiðum í dag en hér áður og erum hætt að fylgja innri visku og látum ytra umhverfið hafa of mikil áhrif.

Ég er engin undantekning þarna og hef alveg fari framúr mér og oftar en ekki vegna þess að ég vildi standa mig! Ég hef líka upplifað kvíða sem afleiðing af veikindum og streitu en á meðan ég var sérfræðingur að greina slíkt hjá öðrum þá áttaði ég mig alls ekki á þessu hjá sjálfri mér. Það var ekki fyrr en ég var komin norður í land sem pússlin fóru að falla saman. Umvafin fjöllum og frið, færri áreitum og sleppti sjálfstýringunni, enda var ég ekki alltaf að passa upp á hvað öðrum fannst því það þekktu mig fáir svo öllum var sama 😊

Þetta var svo ómetanleg reynsla því ég hafði engan veginn áttað mig á hvaða áhrif fullkomnunaráráttan hafði á mig. Rætur fullkomunaráráttunnar er að finna í óöryggi og kvíða yfir að vera hafnað af umhverfinu og við erum tilbúinn að ganga ansi langt til að standast óraunhæfar væntingar sem maður setur sjálfum sér. Það er dásamlegt að vera komin á þann stað að ég bæði sé þetta og get viðurkennt fyrir öðrum, því það er forsenda breytinga. 


Hvað gæti verið fyrsta skrefið fyrir þig að skoða þetta! Hvernig væri að prófa að
taka sjálfstýringuna af og taka eftir hvað er í gangi í huganum þínum. Ertu tilbúin að staldra við og skoða hvað er að fara í gegnum hugann þegar þér líður ekki nógu vel, þegar þú hefur áhyggjur, upplifir vonleysi o.s.frv. Hér er gott að byrja að skoða hversdagslega hluti því þar getum við byrjað að breyta. Af hverju ertu t.d. að vinna meira en þú finnur að geri þér gott? Gerir mér vel grein fyrir því að hjá mörgum er það vegna afkomu en ég er líka mjög meðvituð um að hjá mörgum er það vegna þess að viðkomandi upplifir að hann VERÐI að gera það. Er eitthvað skakkt við þá hugsun eða verður þetta ALLTAF að vera svona?  

Það getur verið gott fyrir þig að skoða hegðunina þína. Máttu taka pláss eða ertu alltaf að passa upp á að láta lítið fyrir þér fara? Setur þú öðru fólki mörk eða áttu erfitt með það og upplifir þess vegna pirring gagnvart fullt af fólki en þú hefur aldrei orð á því við þann sem þyrfti að heyra það? Ertu að taka inn á þig hluti sem aðrir segja og gera í stað þess að skilja ábyrgðina eftir hjá þeim? Eru einhverjir hlutir sem þig dreymir um að gera en upplifir að það sé bara á annarra valdi að takast á við slíkt – þú hafir ekki það sem þarf? Eiga þessar hugsanir við rök að styðjast – eða eru þetta hugsanavillur sem eiga rætur í fullkomnunaráráttu.

Læt þetta duga í bili en mantran mín þetta árið er; hamingjan mín eykst í beinu hlutfalli við sáttina en öfugu hlutfalli við væntingar mínar!
Kærleikskveðja,

 
Anna Lóa