Elsku barn!

Ég elska að vera amma og upplifi þennan skilyrðislausa kærleika gagnvart því kraftaverki sem litla sonardóttir mín er. Var að passa hana í gær og var svo hugsi um hversu dásamlegt lífið er þegar börnin eru einungis að fá frumþörfum sínum fullnægt og eru örugglega aldrei í vafa um að þau eiga það skilið. Þegar hún grætur er það yfirleitt vegna þess að hún er þreytt eða svöng og svo er einstaka magakveisa að angra inn á milli. Hún er ekkert að hugsa þetta neitt djúpt – hún finnur hvað það er sem hana vanhagar um og finnur leiðina til að láta okkur fullorðna fólkið vita.

Svo vex hún úr grasi og margt breytist. Okkur er gefin hæfileikinn til að hugsa en hvernig við förum með þann hæfileika er undir okkur sjálfum komið. Ef við erum ekki meðvituð um hugsanir okkar þá leiðar þær okkur oft á villigötur. Við getum t.d. efast um að við eigum skilið að fá þörfum okkar fullnægt og alls kyns órökréttar hugsanir taka völdin. Þannig finnst okkur við jafnvel ekki eiga skilið að vera elskuð vegna þess að við erum ekki eins klár, falleg, skemmtileg, rík eða fræg eins og næsta manneskja. Við förum að miða okkur við aðra og gleymum því að öryggið okkar byggir mikið til á því hvernig við hugsum um okkur og aðstæður okkar en ekki aðstæðurnar sjálfar.

Þegar við metum samferðarfólk okkar gerum við það yfirleitt út frá þeim eiginleikum sem prýðir það. Þannig skipta heiðarleiki, hugrekki, seigla, örlæti og auðmýkt okkur mun meira máli en útlit eða greind. Þrátt fyrir það fyllumst við oft efasemdum um okkur sjálf og útlit og göngum jafnvel svo langt að óska einskis frekar en að vera fallegri, greindari, merkilegri eða eitthvað annað sem er vísbending um að það vanti virðingu fyrir eigin sjálfi.

Ef við settum meiri athygli í að taka eftir öllum fallegu hlutunum sem eru í lífi okkar fer okkur að líða betur hið innra. Þegar við upplifum jákvæða eiginleika í fari annarra förum við jafnvel að taka eftir þeim og rækta hjá okkur sjálfum. Þegar við hrósum öðrum af einlægni líður okkur betur innra með okkur sjálfum og allir njóta góðs af. Þegar við skoðum viðhorf okkar til lífsins og reynum að sjá glasið hálf-fullt í stað hálf-tómt, fer margt að breytast til betri vegar. Þegar við þorum að takast á við lífið og þau verkefni sem því fylgir erum við að efla heiðarleikann, hugrekkið, seigluna, örlætið og auðmýktina í lífi okkar.

Þegar sonardóttir mín hefur aldur til að skilja þetta mun ég ráðleggja henni:
Vertu óhrædd við að gera mistök því sá sem gerir engin mistök gerir aldrei neitt. Það er alveg sama hvað við tökum okkur fyrir hendur – ef við höfum ekki gert það áður þá er líklegt að við gerum einhver mistök. Flestir sem eru góðir í einhverju hafa verið duglegir að æfa sig en ekki endilega fæðst ótrúlega hæfileikaríkir.

Taktu sjálfa þig ekki of alvarlega – enginn annar gerir það. Þegar þú þorir að vera þú sjálf og hleypir slatta af húmor og gleði inn í líf þitt, verður allt mun auðveldara. Hláturinn er ekki bara líffræðilega góður, hann minnkar líka andlegar þrautir.

Klífðu fleiri fjöll, syntu í fleiri ám, hjólaðu um fallega landið þitt og búðu þannig til minningar sem lifa með þér út lífið. Ekki bíða eftir rétta augnablikinu til að byrja að lifa lífinu, það kemur kannski aldrei.

Reyndu að halda heimatilbúnu vandamálunum í lágmarki og taktu með skynsemi á þeim sem eru alvöru. Flest af okkar ,,vandamálum“ eru búin til í hausnum á okkur.

Ekki miða þig við aðra – þú sjálf ert besta eintakið af þér.

Finndu hamingjuna með sjálfri þér áður en þú leitar að henni annars staðar. Það er yndislegt að vera ástfangin en besta tegund af ást kveikir von um nýja hamingju en ekki flótta frá gamalli óhamingju.

Dansaðu eins og enginn sé að horfa, syngdu eins og enginn sé að hlusta og elskaðu eins og þú hafir aldrei lent í ástarsorg.

Svo það mikilvægasta; þú ert í raun meistaraverk og það er engin eins og þú.
Lífið mun sá hjá þér efasemdarfræjum en mín skilaboð eru að mikilvægasta af öllu er að læra að elska og virða þetta meistaraverk því þá hefur þú svo mikið að gefa öðrum ❤

Kærleikskveðja
Anna Lóa