Eldast og öðlast!!

Þegar við upplifum þroskakreppur og áföll í lífinu upplifum við oft einmanaleika. Þegar talað er um þroskakreppur er verið að vísa í tímabil eins og unglingsárin, veikindi, breytingaskeiðið, skilnað eða aðrar meirihátta lífsbreytingar og áföll. Ef við náum að vinna jákvætt úr þessum tímabilum erum við að kalla fram meiri þroska, en ef við gefum okkur ekki tíma til að fara í gegnum þessar kreppur, af því að í eðli sínu eru þær erfiðar, spólum við oft í sama farinu og komumst lítið áfram. Dæmi um að neita því að takast á við þessar kreppur er aukin neysla (áfengi, vímuefni, ræktin) ótímabær sambönd eða annað sem linar sársaukann. Fyrstu viðbrögð eru oft: hver eða hvað getur bjargað mér frá þessu tímabili, en svarið er yfirleitt VIÐ SJÁLF - stundum með góðri hjálp frá öðrum. Hér er ekki verið að tala um að maður eigi að loka sig af, hætta að lifa lífinu og fara þetta á hnefanum. Frekar að átta sig á því að allt hefur sinn tíma og mikilvægt að finna styrkleika sína á þessum tímabilum því á sama tíma erum við oft að kynnast nýjum hlutum um okkur sjálf og erum að tengjast lífinu á annan hátt. Við þurfum að finna út hvað það er sem gerir okkur gott því kreppur krefjast tengsla, en tengsla við þætti sem við vitum að eru okkur mikilvægir á þessum tíma og gera okkur gott. Við fáum öll þessi verkefni og förum í gegnum erfiða tíma og jafnvel harmleiki. Eðlilegt að við verðum tilfinningarík í þessum aðstæðum og upplifum vanmátt. Leynivopnið okkar fellst í að sýna sjálfstjórn og styrk þegar það kemur að því að takast á við þessar áskoranir og þess vegna skiptir máli að við förum eftir því sem við vitum að er gott fyrir okkur. Sagði aldrei að það væri auðvelt en þannig vex maður eftir hverja raun. Í stuttu máli að þrátt fyrir að leita út á við eftir hjálp - þá krefjast þessi tímabil öðru fremur að skoða hverjir styrkleikar okkar eru, hvernig við getum nýtt þá á erfiðum tímum og átta okkur á því að þetta er hluti af lífinu. Það er holt að hugsa: er ég að eldast og öðlast í lífinu eða er ég kannski bara að eldast og eldast! Grow up or grow old! Kærleikskveðja Anna Lóa