Ekki benda á mig!!

Mig langar svo að tala um það vera höfundur af eigin lífi. Því duglegri sem við erum að vinna að því að skapa líf okkar á þann hátt sem við viljum því minni líkur á því að aðrir ráði þar of miklu. Lífið er nú einu sinni þannig að við eigum okkar góðu tíma og svo koma þeir tímar sem reynast okkur erfiðari. Þegar við förum í gegnum erfiðleika þá missum við oft frumkvæðið og óöryggið heltekur okkur. Þá getur verið gott að leita eftir stuðning því annars eigum við á hættu að einhverjir aðrir taki við stjórninni. Óörugg manneskja sem lendir í ágengum félagsskap sem elur á enn meira óöryggi, býr við þá hættu að brotna enn frekar. Manneskja sem er óörugg á erfiðara með að bera hönd fyrir höfuð sér, sættir sig við eitthvað sem hún jafnvel veit að er ekki gott fyrir sig og kennir sjálfri sér um að svona sé komið fyrir henni. Óörugg manneskja í ágengum félagsskap verður oftar en ekki skugginn af sjálfum sér en áttar sig ekki á því fyrr en allar varnir eru brostnar. Það eru ekki einhverjar sérstakar týpur sem lenda í óheilbrigðum samskiptum - við getum öll lent í þeim því lífið er einu sinni þannig að við eru á mismunandi stað í lífinu þegar við eigum í samskiptum við aðra. Það sem við þurfum öðru fremur eftir slík sambönd/samskipti er að ná í öryggið okkar aftur því brotin manneskja þarf að ná í sjálfan sig áður en hún deilir lífi sínu með öðrum.  Við skulum fara varlega í að dæma og stimpla fólk. Heyrði eina ömurlega setningu um daginn en verið var að gagnrýna mann sem fæst við ráðgjöf vegna þess að hann sjálfur hefur átt erfitt í samböndum!! Prestar skilja, lögfræðingar drekka, hjónabandsráðgjafar lenda í ástarsorg, sálfræðingar gera mistök í uppeldi og Anna Lóa í Hamingjuhorninu er ekki alltaf blússandi hamingjusöm!! Af hverju erum við svona dómhörð!! Af hverju þurfum við að slökkva ljós annarra svo okkar skíni skærar! Þeir sem eru hin fullkomna mynd á yfirborðinu eiga líka sína erfiðu tíma - við vitum bara ekki af þeim. Styðjum, styrkjum, hlustum og hvetjum!! Það á engin meiri rétt til hamingju í lífinu en ég og þú. Við erum öll á sama báti og ef einhvern reynir að telja þér trú um annað þá er það einfaldlega rangt!! Að lokum: Ég hef rétt til að telja hagsmuni mína jafn mikilvæga hagsmunum annarra. Ég hef rétt til að taka ákvarðanir enda tek ég afleiðingum gerða minna. Ég hef rétt til að játa og neita því sem aðrir beina til mín án þess að þurfa að réttlæta það, afsaka eða fá samviskubit. Ég á rétt á því að vera virt sem manneskja, óháð þeim hlutverkum sem ég hef í lífinu. Ég hef rétt til að láta skoðanir mínar í ljós. Ég hef rétt til að láta tilfinningar mína í ljós og þarf ekki að afsaka það. Ég hef rétt til að gera mistök, enda tek ég afleiðingum þeirra. Ég hef rétt til að skipta um skoðun. Ég hef rétt til að segja “ég skil ekki” og “ég veit ekki.” Ég hef rétt til að neita að bera ábyrgð á vandamálum annarra. Ég hef rétt til að vera óháður elskusemi annarra. Ég hef rétt til þess að hafa samskipti við aðra, þó ég sé ekki sammála þeim. Ég hef rétt til að verjast árásum þeirra sem ganga á rétt minn. Skilyrði þess að ég megi nota þessi réttindi er að ég gangi ekki á þessi sömu réttindi hjá öðrum. Takk fyrir að lesa kæri vinur!! Anna Lóa