Eitt skref í einu!

Ég man að góður vinur sagði eitt sinn við mig þegar ég var að fara í gegnum erfiða tíma: Anna Lóa, stundum dugar ekki að taka einn dag í einu - stundum þurfum við að taka klukkutíma fyrir í einu. En það er mikilvægt að gangast við tilfinningum sínum og leyfa sér að finna til. Lífið er ekki einn táradalur en eitt og annað sem við þurfum að takast á við sem kallar fram tár eða tvö. Vanmat á sorg eða forboðin sorg, þar sem fólk lokast inni með tilfinningar sínar finnur sér yfirleitt annan farveg sé henni ekki sinnt. Þeir sem eiga erfitt tilfinningalega og finnst veikleikamerki að sýna sorgarviðbrögð finna oft fyrir meiri líkamlegum einkennum en þeir sem gangast við sorginni. Við þurfum að hlúa að sorginni eins og öðrum sárum, þau gróa með tímanum en eftir standa ör sem minna okkur á. Las sjálfsævisögu leikkonu fyrir nokkrum árum. Hún lýsti því vel hvað það reyndist henni erfitt að fara í gegnum áfall sem hún varð fyrir í lífinu og leitaði sér fagaðstoðar þar sem hún spurði hvort það væri ekki hægt að taka allar þessar vondu tilfinningar frá henni. Svo bætti hún því við að hana dreymdi um að geta stigið ofan í heitan pott og þegar hún kæmi aftur upp úr þá væri öll vanlíðanin horfin á braut. Fagmaðurinn svaraði þessu vel, en hann sagði: ég get tekið allar þessar vondu tilfinningar frá þér en þá munt þú ekki stíga upp á svið og leika aftur! Sorgin og erfiðleikarnir voru hluti af þeim skapandi krafti sem hún bjó yfir sem leikkona þar sem annað getur ekki lifað án hins. Ég hef verið dugleg að minna mig á þetta og finnst þetta svo mikilvæg áminning fyrir okkur öll. Erfiðleikar okkar eru hluti af því sem við erum og verðum. Hamingjusamt og skapandi líf er ekki líf án erfiðleika, því barátta byggir upp styrk og þegar við þurfum að takast á við brekkur í lífi okkar aukum við smám saman styrk okkar og þol í lífinu sem eykur sjálfstraustið sem eykur líkur á meiri hamingju þegar upp er staðið. En stundum þurfum við á því að halda að fá smá frí frá erfiðum tilfinningum. Þannig getur verið gott að skapa fjarlægð milli okkar og þess sem við erum bregðast við. Slökun, göngutúr, spjall við vin, lestur. Allt sem veitir okkur innri frið og æðruleysi á vel við þegar tilfinningarnar bera okkur ofurliði. Ef þú ert í fjallgöngu og lendir í sjálfheldu, hvað gerir þú? Hugsar hvað þú getur gert akkúrat þá stundina, hvert verður næsta skref og fikrar þig áfram þar til þú ert örugg-/ur. Það sama gildir um lífið, þegar allt virðist ómögulegt skaltu fókusera á augnablikið og vinna þig þaðan. Taktu eitt skref í einu, náðu í öryggið þitt, þá næsta skref og svo áfram þar til þú finnur að það versta er yfirstaðið. En svo skiptir líka máli að vera ekki alltaf að bíða. Bíða eftir að líf okkar verði auðveldara svo maður geti leyft sér að upplifa meiri hamingju. Ef þú horfir í kringum þig þá er það ekkert síður fólkið sem hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika sem er hvað hamingjusamast. Á einhverjum tímapunkti hafa þessir einstaklingar ákveðið að þrátt fyrir erfiðleikana þá væri hamingjuríkt líf eina lífið sem væri þess virði að lifa. Hamingjuríkt líf er ekki eitthvað sem er ætlað fáum útvöldum - það er okkar ákvörðun að velja að lifa þannig lífi og við getum byrjað strax í dag. Kærleikskveðja   Anna Lóa