Ég og öll járnin í eldinum!

Á þessum tíma ársins eru margir að skipuleggja líf sitt í tengslum við vinnu og verkefni framundan. Við skoðum hvað það er sem við þurfum að gera og hvað það er sem okkur langar að gera og hvernig við getum fundið jafnvægi þarna á milli. Orsakir streitu eru oft langtíma hunsun á ástandi sem hefði verið hægt að komast hjá. Því er mikilvægt að skoða hvernig maður hefur tekist á við verkefnin fram að þessu og hvort maður geti nálgast þau á annan hátt ef útkoman var mikil streita og þreyta Við þurfum að vera meðvituð um hvenær við erum að sigla inn í erfiða og óheilbrigða orku og hvað við ætlum að gera í því. Ef við erum meðvituð um hvernig lífi við þurfum að lifa til að okkur líði sem best getum við minnkað streituna sem aftur gerir það að verkum að við eigum auðveldara með að takast á við erfiðar tilfinningar. Það er langt síðan ég áttaði mig á því að ég hef alltaf haft mikið að gera - og ef það er ekki mikið að gera hjá mér þá bý ég til verkefni. Ég hef alltaf verið svona og er löngu hætt að streitast á móti því enda man ég eftir mér sem barni taka stjórnina hér og þar og alls staðar og var alls ekki hrifin af því að vera í einhverju hangsi. En þetta var persónan ég að þroskast og verða að þeirri manneskju sem ég er í dag - þetta er kjarninn minn. Viðmiðin mín eru því byggð á því hver ég er - en ekki hvað öðrum finnst eðlilegt, rétt eða passlegt fyrir mig. Ég er engin ofurkona eða ofvirk, eins og fólk kastar fram - ég er bara Anna Lóa sem þarf að hafa mörg járn í eldinum og hef alltaf verið þannig. En ég er líka meðvituð um hvernig líf hentar mér og reyni að fylgja því eftir, því annars er hætta á ójafnvægi sem hefur áhrif á mig sem manneskju. Ég þarf að passa upp á svefninn, mataræðið, hreyfinguna og slökunina. Þegar ég gleymi mér fer allt í vitleysu og ég upplifi ójafnvægi - já það er ekki alltaf auðvelt að vera ég hahahaha – en ég er alltaf að læra betur og betur á MIG. Ég finn svo vel að það verður allt skemmtilegra þegar maður leyfir sér að njóta meira alls þess góða sem lífið hefur upp á að bjóða – svona í réttu jafnvægi við annað. Við njótum þess enn frekar að borða góðan mat ef við hreyfum okkur og erum andlega betur stemmd ef við munum eftir að eiga góðar stundir þar sem við slökum á. Við verðum að vanda okkur við að búa til gleðistundir og góðar minningar því það er svo stutt á milli þess að njóta og tapa sér í vitleysunni. Þegar ég tala við ykkur er ég líka að tala við sjálfa mig. Ég ætla að vanda mig þessa dagana því ég veit að það er ég sjálf sem stjórna því hvernig ég læt lífið hafa áhrif á mig. Ég ætla að njóta þess að skrifa til ykkar, og gera hluti sem gefa mér orku í stað þess að láta bara frá mér orku. Geri mér vel grein fyrir að þetta tekst ekki alltaf, og fegurðin er fólgin í því að átta sig á því að þannig er nú einu sinni lífið. Staðreyndin er sú að það er ekki endilega auðveldara líf sem veitir okkur hamingju. Barátta byggir upp styrk og þegar við þurfum að takast á við brekkur í lífi okkar aukum við smám saman styrk okkar og þol í lífinu sem eykur sjálfstraustið sem eykur líkur á meiri hamingju þegar upp er staðið. Hvernig veit ég hvernig tilfinning er að vera mjög glöð ef ég hefði ekki upplifað að vera alls ekki glöð! Allt er þetta því nauðsynlegt í bland og ef við temjum okkur ákveðið umburðarlyndi hvernig lífið er í stað þess hvernig okkur finnst að það ÆTTI að vera, þá held ég að þetta takist allt saman ágætlega!! Takk fyrir að lesa pistlana mín – það gefur mér ótrúlega mikla orku og vellíðan að fást við þessa ástríðu mína á sama tíma og ég er vonandi að láta gott af mér leiða. Fyrir mér er það eitt mikilvægasta verkefnið í lífinu – að geta litið sáttur yfir farinn veg af því að maður hafði jákvæð áhrif á samferðafólk sitt – hvernig svo sem maður gerði það. Læt þetta duga í kvöld – kominn svefntími :-)
 Kærleikskveðja Anna Lóa