Ég heiti Anna Lóa og er auðtrúa!

Ég er ótrúlega auðtrúa sem hefur sína kosti og galla. Kostirnir eru að ég er til í að prófa ýmislegt og er jákvæð fyrir nýjungum en gallinn er sá að ég hef gert ótrúlega heimskulega hluti þegar ég hef hlustað á ráðleggingar annarra. Fjölskyldan hefur ekki farið varhluta af þessu og stundum dáist ég að langlundargeði þeirra í minn garð. Það gætu t.d. einhverjir sett spurningarmerki við það, að ég límdi niður annað eyrað á syni mínum þegar hann var nokkra vikna. Þetta gerði ég til að færa eyrað aðeins nær höfðinu en ,,það var sagt mér“ að þegar börnin væru svona ung væri eyrað svo mjúkt og því væri best að gera þetta sem fyrst. Það var erfitt að útskýra stóra heftiplásturinn sem huldi hálft höfuð sonarins fyrir föður hans þegar hann kom heim og enn erfiðara að þurfa að raka hárið af honum í kjölfarið þar sem límið festist að sjálfsögðu í því litla hári sem prýddi kollinn hans. Ég er enn að reyna að útskýra fyrir syni mínum af hverju ég taldi þetta góða hugmynd - hluti af fyrirgefningu hans er að leyfa mér að birta þetta hér!!
Kókosbolluþrýstingur! Þegar ég las að konur sem væru farnar að lengja eftir fæðingu ættu að borða kókosbollu og drekka kók til að mynda þrýsting í kviðarholinu og með því mundi barnið ,,spýtast“ út, fannst mér eðlilegasti hlutur í heimi að gera þessa tilraun á systur minni sem var komin nokkra daga framyfir. Við úðuðum þessu í okkur (ég til stuðnings) en hún átti ekki son sinn fyrr en 10 dögum síðar. Móðir okkar var ekki ánægð með mig og heyri ég enn í henni þar sem hún segir ,,Anna Lóa, ég átti nú ekki von á þessari vitleysu frá þér“. Systir mín man sem betur fer lítið eftir þessu, hefur reyndar ekki getað sett kókosbollur inn fyrir varirnar í 23 ár en sonur hennar er alheilbrigður og yndislegur. Kartöfluvatn og krem! En stundum er það bara þannig að við gerum eitthvað af því að við höfum lært það af einhverjum öðrum og erum þá ekki að spyrja hvort þetta sé rétt eða virki, við framkvæmum bara. Ég er ekkert viss um að maður bæti minnið með því að drekka kartöfluvatn en amma mín gerði það og þá gerir maður það bara. Hvort hárið vaxið hraðar og verði þykkara þegar maður er búin að nudda hársvörðinn upp úr Nivea-kremi kem ég aldrei til með að vita 100% en kannski allt í lagi að segja frá því hér að hárið á mér er ekki svona feitt. 
Þetta með baunirnar er SATT! Nú að lokum, ef einhverjir eru að spá í af hverju ég labba svona einkennilega þegar ég tek heilsugönguna mína hér um bæinn þá skuluð þið bara prófa að setja baun á milli rasskinnanna og ganga 6 kílómetra. Allir sem á annað borð hafa einhvern áhuga á líkamanum vita að þetta er besta leiðin til að fá stinna rassvöðva! En eigið nú yndislegan dag og gerið eitthvað geggjað - gaman að segja frá því síðar!! Kærleikskveðja Anna Lóa