Dæmum minna - hlustum meira!!

Mikil umræða hefur verið undanfarið um þunglyndi og þá í tengslum við fárveikan flugmann sem virðist hafa tekið þá hræðilegu ákvörðun að enda líf sitt og 150 farþega. Eðlilegt að fólk spyrji sig ýmissa spurninga við svona hræðilegt slys (hræðilegan glæp) en mjög mikilvægt að vanda vel til allrar umfjöllunar um svona mál. Það ber þá helst að varast að umfjöllum um þunglyndi verði tengd um of því glæpsamlega athæfi sem þarna átti sér stað.
Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að karlmenn eiga erfiðara með að tjá vanlíðan sína en menn þykjast hafa séð breytingu til batnaðar hin síðari ár og því gæti óvarleg umfjöllun snúið þeirri þróun við. Það hefur verið sérstakt áhyggjuefni bæði hér á landi og annars staðar sá fjöldi karlmanna sem fellur fyrir eigin hendi á hverju ári vegna þunglyndis. Þá er talið að stór hluti vandans megi einmitt tengja því að karlmenn leita sér síður hjálpar vegna vanlíðan eða vanmáttar.
Við þurfum að átta okkur á því að það er talið að 350 milljónir í heiminum þjáist af þunglyndi og 1 af hverjum 4 upplifi andlega erfiðleika einhvern tímann á ævinni. Eina leiðin að bata eða getu til að lifa með sjúkdómnum er að geta deilt með öðrum, losa sig við skömmina og láta reyna á þau úrræði sem eru í boði hverju sinni (okkur er alltaf að fara fram).
En hvaða skilaboð við erum að senda út þegar andleg vanlíðan er annars vegar. Þarna er ég ekki bara að tala um þunglyndi heldur erfiðar tilfinningar sem geta endað í þunglyndi ef við fáum ekki að taka tíma í að vinna úr okkar málum. Munurinn á þunglyndi og sorg er t.d. sá að í sorginni upplifum við að heimurinn sé snauður og tómur – í þunglyndi upplifir maðurinn sig snauðan og tóman (Freud).
Samfélagið leggur svo mikla áherslu á dugnað, styrk, hæfni og virkni en þegar við erum að fást við erfiðleika og áföll í lífinu þá eru viðbrögð okkar andstæða þessa. Þessi misræmi í skilaboðum geta gert það að verkum að sá sem er að fara í gegnum erfiðleika finnst hann eitthvað öðruvísi eða óeðlilegur og tjáir sig því ekki um líðan sína. Það sem við þurfum öðru fremur þegar við erum að takast á við erfiða tíma eru einmitt tengsl og tjáning. Ef við gerum ráð fyrir að við eigum að vera einhvern veginn allt öðruvísi – eða að við eigum að vera upplifa hlutina á annan hátt, þá erum við síður að tjá okkur um líðan okkar við aðra. Sem ráðgjafi hef ég því miður fengið að heyra það allt of oft hjá karlmönnum að þeim finnst þeir óeðlilegir að vera að upplifa vanmátt og erfiðar tilfinningar og þeim reynist erfitt að tjá sig við einhvern hvernig þeim líður.
Ef við fáum ekki að tjá okkur um líðan okkar og upplifum okkur óeðlileg á einhvern hátt er meiri hætta á að við finnum leiðir til að deyfa. Við getum deyft með ýmsu móti en áfengi og önnur fíkniefni, matur, ótímabær sambönd, kynlíf og líkamsrækt eru líklega algengasta leiðin.
Þegar við hittum einhvern sem er að fara í gegnum erfiðleika er mjög varhugavert að segja; já þú ert nú alltaf svo duglegur og jákvæður – þá heyrir viðkomandi; þú átt að vera duglegur og jákvæður. Það væri mun nær að spyrja hvernig viðkomandi hefur það en þá þarf maður líka að vera tilbúin að hlusta, án þess að koma með sögu af sjálfum sér eða öðrum sem ,,tæklaði“ svona aðstæður með glæsibrag.
Opin og heiðarleg samskipti eru lykillinn að tengslunum sem maður þarf á þessum tímapunkti og ég viðurkenni það algjörlega að í gegnum hin ýmsu áföll sem ég hef tekist á við í lífinu hef ég ekki hikað við að leita mér hjálpar. Þú værir líklega ekki að lesa þennan pistil nema vegna þeirra staðreyndar að ég hef staðið frammi fyrir því að finnast ég alein í heiminum að upplifa ótrúlega erfiða tíma en upplifað mig svo aftur ,,normal“ eftir gott samtal við fagmanneskju.
En þetta á ekki bara við þegar maður tekst á við erfiðleika og áföll. Í dag er ég meðvituð um að í hvert skipti sem ég tekst á við áskoranir í lífinu þá fylgir því ákveðin einmanaleiki – því þarna þarf maður oftar en ekki að treysta á sjálfan sig og óvissa um hvernig til tekst. En þrátt fyrir að vita af hverju þessar tilfinningar koma þá er ómetanlegt að tjá sig um þær og upplifa sig normal þrátt fyrir allt. Það er bæði gott og gilt að vera jákvæð manneskja en staðreyndin er sú að hlátur og grátur eru bræður þar sem annar getur ekki án hins verið.
Tengslin við aðra eru því líka til að rjúfa einangrun – að viðkomandi upplifi sig ekki einan með þessar hugsanir og tilfinningar. En engin tvö vandamál eru eins og engir tveir einstaklingar heldur. Því ber að varast að reyna að þröngva fólki inn í einhverja fyrirframgefnar lausnir en staðreyndin er sú að þöggun á erfiðum tilfinningum og áföllum leiðir oftar en ekki til sjúklegs ástands. Við megum aldrei vanmeta styrkinn og stuðninginn sem felst í því að vera til staðar.
Við þurfum að læra á heiminn aftur eftir erfiða tíma og þá er ómetanlegt að hafa einhvern sér við hlið – einhvern sem segir okkur ekki hvernig hlutirnir eiga að vera en leyfir okkur að feta skrefin áfram, eitt og eitt í einu, en styður við okkur í leiðinni.Vöndum okkur í umgengni við aðra!! Dæmum minna og hlustum meira. Við eigum öll okkar góðu tíma en líka þá erfiðu.
Langar í þetta skiptið að þakka öllum þeim fjölda af karlmönnum sem hafa lesið og tjáð sig í Hamingjuhorninu. Verum samstíga í því að fækka þeim einstaklingum sem eru að upplifa sig eina og öðruvísi í samfélaginu. Gerum þetta saman!!
Kærleikskveðja Anna Lóa