Brot læknar brot!

Ég hef alltaf verið andlega sinnuð og hef leyft mér að viðurkenna það fyrir sjálfri mér og öðrum. Ég hef meðvitað verið að fara úr því hlutverki sem ég tel að aðrir vilji að ég leiki og í það hlutverk sem ég er sönnust í – sem snýst einhvern veginn um það að leyfa sér að vera meira maður sjálfur. Ég er ekki fullkomin manneskja sem gerir aðra manneskju fullkomna – ég er brotin manneskja sem get vonandi gefið annarri manneskju ljós. Brot lækna brot – ekki hin fullkomna fyrirmynd.
Það fylgir því mikið frelsi að átta sig á þeirri staðreynd að það er brotalöm í okkur öllum og sannur kærleikur gagnvart sjálfum sér er að sjá sig eins og maður er og taka sér nákvæmlega þannig. En það sem við lítum á sem brestina okkar getur einmitt verið okkar stærsti kostur og hjálpað okkur að lifa af erfiða tíma, þrátt fyrir að snúast upp í andhverfu sína og valda okkur vanlíðan á öðrum tímum.
Brestirnir okkar víkja ekki endilega þrátt fyrir að við séum meðvituð en þeir mýkjast jafnvel með tímanum og þá sérstaklega þegar við viðurkennum þá og hættum að dæma okkur fyrir að vera ekki alltaf með lífið algjörlega á hreinu. Hver er þannig?? Það er munur hvort við förum lífið á hnefanum eða opnum lófann fyrir lífinu, með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir.
Ef ég deyfi brestina“ mína og reyni að kæfa þá í fæðingu, er ég á sama tíma að deyfa og kæfa það sem er minn aðal kostur. Sem tilfinningaverur tökum við ýmislegt nærri okkur – en sem tilfinningaverur erum við líka með hæfileikann til að setja okkur í spor annarra og finna til gleði og sorgar í ákveðnum skömmtum. Ekki viljum við vera flöt – og þannig getur eitt ekki verið án hins. Það er enginn með svör við öllu – hvorki fyrir sjálfan sig né aðra – en með því að skoða sjálfan sig á sanngjarnan hátt án þess að vera með dómarann á lofti erum við nærri því að taka okkur eins og við erum.
Mér finnst gott að vera búin að átta mig á því að lífið er ein stór sveifla. Ekkert er eilíft og verkefni okkar flestra ganga út á að takast á við ákveðinn verkefni og áföll en þess á milli að lifa af hversdagsleikann. Sá sem á erfitt með mánudaga og soðin fisk getur auðveldlega lent í að búa til ákveðið neyslumunstur til að forðast að takast á við hversdagsleikann. Þegar við þróum með okkur ákveðin neyslumunstur erum við oft að forða okkur frá tengslum – því þau þarfnast meira af okkur.
En það er ekki endilega auðvelt að gangast við sjálfum sér – við þurfum að æfa okkur. Ég kalla þetta kjarkæfingar þar sem við þurfum að vera hugrökk og leita út á við. Þegar við erum ósátt við okkur sjálf, upplifum við gjarnan skömm og langar mest að loka okkur af því það hefur örugglega ENGIN annar upplifað þetta. En við eigum einmitt frekar að virða ófullkomleika okkar með því að deila með öðrum það sem við erum að upplifa. En við deilum ekki með hverjum sem er - við deilum með þeim sem hefur unnið sér réttin til að heyra það sem við höfum að segja - einhver sem elskar okkur eins og við erum og einmitt af því að við erum varnarlaus á stundum.
Skömmin þrífst á leyndinni sem umlykur hana - um leið og við tjáum okkur um hana minnkar hún. Við þurfum að minna okkur á að við erum jafn veik og leyndarmálin okkar segja til um. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem verður fyrir áföllum í lífinu (sérstaklega þeir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi) og deila ekki reynslu sinni - eiga á hættu að leyndin geti orsakað meiri skaða en áfallið sjálft. Við höfum oft orðið vitni af því hvernig fólk talar um að þungu fargi er af því létt við það að tala um erfiða atburði.
Það er mikið frelsi fólgið í því að fara frá ,,hvað mun fólk hugsa“ yfir í ,,ég er bara í lagi eins og ég er“. Hvet þig taka þessa ferð á hendur og ef þú ert lagður af stað að halda ótrauður áfram. Maðurinn hefur ekki efni á að dæma og mundu að sá sem dæmir aðra mest er dómharðastur á sjálfan sig. Sáttin við sjálfan sig er svo mikilvægt skref – og þá ekki sátt við annað eintak en þú ert í dag – heldur nákvæmlega eins og þú ert – með kostum þínum og göllum.
Fyrsti í aðventu framundan – og munið að þessi tími á ekki að vera á einhvern ákveðinn hátt. Lífið er eins og þú tekst á við það hverju sinni og þegar við erum að bíða eftir því að einhverjir aðrir komi með jólaandann til okkar – þurfum við að fara inn á við og finna hann sjálf!
Kærleikskveðja! Anna Lóa