Breytingabarningur!!

Þegar ég er að takast á við áskoranir í lífinu þá þarf ég ALLTAF að minna mig á að þeim fylgja allskyns tilfinningar. Gleði, tilhlökkun, kvíði, efasemdir, depurð, eftirsjá og margt fleira. Ég þarf að vera dugleg að minna sjálfa mig á að þrátt fyrir að upplifa erfiðar tilfinningar þá þýðir það ekki að þessi áskorun sé ekki tímabær eða eigi ekki rétt á sér. Það reynir einmitt á okkur þegar við upplifum þessar erfiðu tilfinningar en þá skiptir svo miklu máli að halda í þá trú að maður sé á réttri leið og þetta sé hluti af ferðalaginu.

Ég er búin að átta mig á því að hræðsla, innri gagnrýni og hugsanavillur munu vera ferðafélagar mínir og eiga greiðan aðgang að mér sem er eðlilegt þegar fengist er við nýja hluti. Kvíði og óöryggi er hluti af okkar innbyggða og fullkomna varnarbúnaði sem verndar okkur frá því að lenda í miklum hættum og gerir ekki greinarmun á hvers konar hættuástand um er að ræða: er tígrisdýr framundan, þarftu að tala fyrir framan hóp eða ætlarðu að skrifa grein í bæjarblaðið!!

Ég hef oft staðið frammi fyrir því að langa/þurfa að takast á við breytingar og áskoranir og spurt sjálfa mig: er þetta rétti tíminn. Væri ekki betra að bíða þangað til strákarnir eru eldri, fjárhagurinn er betri, vorið er komið, grasið orðið grænt, krónan er sterkari og ríkisstjórnin betri!! Þrátt fyrir að stundum geti borgað sig að anda inn í hlutina og bíða þá þurfum við líka að spyrja okkur: eftir hverju er ég að bíða!!

Stundum frestum við hlutunum af því að okkur vantar öryggi til að taka skrefin úr út þægindahringnum. En öryggið kemur ekki fyrirfram - það kemur með framkvæmdinni. Ég verð ekki örugg með því að bíða eftir rétta andartakinu - ég verð öruggari með því að hafa kjark til að taka skrefin og takast á við þau verkefni sem bíða mín.

Svo getum við líka verið að bíða eftir því að aðrir átti sig á því að við þurfum áskoranir - já að einhver annar uppgötvi hæfileika mína og bjóði mér í framhaldinu að láta draumana rætast? Að einn daginn banki einhver upp á og segi „heyrðu, ég hef á tilfinningunni að þú viljir ná lengra á þínu sviði þrátt fyrir að þú hafir ekki sóst eftir því“. Ég hef alveg fari í gegnum tímabil þar sem ég tel að ef ég er nógu hógvær bíði einhver hinum megin við hornið og verðlauni mig með betri launum, flottari stöðu og ótrúlegum tækifærum...af því að ég á það svo skilið.

Hlutirnir gerast þegar ÞÚ ert tilbúinn að láta þá gerast – ekki fyrr og ekki seinna. Allir þeir sem hafa náð árangri eru einstaklingar sem hafa þorað að eiga drauma og fylgt þeim eftir þrátt fyrir efasemdir um sjálfan sig og vantrú frá umhverfinu.

Ég er meðvituð um þann kjark og þá áskorun sem fylgir því að stíga út fyrir þægindahringinn og taka ákvörðun um að breyta lífi sínu, sama á hvaða aldri maður er. Það eru einmitt þessar áskoranir sem skila okkur sterkari einstaklingum þegar upp er staðið, og gerir það að verkum að við lítum sátt yfir farinn veg.

Pistilinn helga ég öllum þeim sem eru að takast á við áskoranir og breytingar í lífinu og eru í miðri hugsuninni: hvað er ég búin að koma mér út í - hvað var ég að hugsa Við ykkur vil ég segja - Ekki vera of upptekin af því hvaða dyr hafa lokast, horfðu fram á veginn og stígðu inn í ný tækifæri byggð á þínum krafti, gildum, hæfileikum og styrk! Það sem við þurfum til að koma á breytingum í lífi okkar er kjarkur. Kjarkur felst ekki í að vera laus við ótta, heldur að vera óttasleginn en halda samt áfram. Það er leiðin að því að verða öruggari og sterkari manneskja og sú áskorun er til staðar alla ævi!! Þangað til næst – gangi þér vel!

Anna Lóa