Breytinga-barningurinn!

Hér í eina tíð þegar mig langaði að breyta einhverju í lífi mínu hafði ég ekki mikla þolinmæði gagnvart því að leyfa hlutunum að gerast. Ég vildi að hlutirnir gengu hratt fyrir sig og átti erfitt með að halda út til lengdar. Svo fór ég nú að átta mig á því að breytingar eru ferli og ákvörðun um að breyta er eitt - að fylgja breytingunum eftir er svo allt annað. Það er nefnilega þannig að þegar við ákveðum að breyta einhverju er þetta ekki spurning um að taka bara ákvörðunina og þá gerist eitthvað stórkostlegt. En bara það að taka ákvörðun er heilmikið mál og skildi ekki vanmeta það en gott að vera meðvitaður um að maður á enn langt í land og þarf að gefa hlutunum tíma.

Þegar við ákveðum að breyta einhverju í lífi okkar er ekki ólíklegt að fram að ákvörðuninni höfum við verið í afneitun en þá erum við ekki tilbúin að horfast í augu við að breytinga er þörf. En svo tökum við kannski ákvörðum um að breyta en byrjum á því að meta kosti og galla við breytingarnar og leggjum frekar áherslu á gallana. Þá fara svona pistlar um breytingar t.d. afskaplega í taugarnar á manni og allir þeir einstaklingar sem eru að gera eitthvað sem maður veit innst inni að væri gott fyrir mann sjálfan. Þá er algengt að maður hakki þetta lið bara í sig, já maður talar um allt þetta heilsukjaftæði eða öfgahópa sem spretta eins og enginn sé morgundagurinn. Eða allt þetta lið sem er að skilja eða flytja eða breyta um vinnu eða endalaust að mennta sig. Hvar endar þetta!

Þegar við erum svo tilbúin að viðurkenna að kostirnir eru fleiri en gallarnir förum við að undirbúa breytingar og á þessu stigi mundum við t.d. velja líkamsræktarstöðina og kaupa kortið eða skoða hvernig við ætlum að koma okkur út úr óheilbrigða sambandinu. Hér er smá hætta á að maður gleymi sér í hrifningu því það eitt að ákveða að innleiða breytingu vekur jákvæðar tilfinningar. Þá erum við með tilkynningar eins og: ,,hver haldið þið að hafi verið að fjárfesta í líkamsræktarkorti og er að fara að taka‘ðetta með trompi“ og maður uppsker jákvæð viðbrögð frá umhverfinu sem eru að sjálfsögðu hvetjandi og okkur líður strax betur, þrátt fyrir að vera jafnvel ekki byrjuð í ræktinni. Við getum líka ákveðin innra með okkur að binda endi á sambandið og finnum til ákveðins léttis en bíðum samt áfram eftir rétta tímanum. Þá getum við jafnvel prófað að breyta einhverju í kringum sambandið, keypt okkur nýtt hús eða nýjan bíl, með þá von að allt lagist.

Svo kemur að því að við látum verkin tala - tökumst á við hlutina og þá skiptir máli að hafa úthald. Þegar við byrjum á einhverju er mikil orka og stundum gleði sem fylgir því en þegar nýja brumið er farið getur verið erfitt að halda út. Þá og einmitt þá þarf maður á þrautseigju að halda. Okkur skortir svo oft úthaldið - en það er alveg sama hvað við tökum okkur fyrir hendur, við þurfum alltaf að halda út þótt við upplifum bakslag. Þetta eru nokkur skref áfram og svo einhver afturábak áður en maður heldur áfram aftur. Svona gengur þetta í smá tíma þangað til maður upplifir smám saman stöðugleika og hluti af ,,gamla“ þér hverfur smám saman og ,,nýi“ þú kemur upp á yfirborðið þegar breytingarnar hafa gengið í gegn.

Það að upplifa erfiðar tilfinningar og óvissu þegar við förum í gegnum þetta ferli er eðlilegt. Við vitum hvernig líf okkar er í dag en ekki hvernig það verður og getum því upplifað leiða, kvíða, eftirsjá og fleira. Þýðir ekki að breytingarnar séu ótímabærar - þýðir einfaldlega að þú er að breytast sem manneskja. En stundum erum við að bíða eftir rétta tímanum en hann kemur yfirleitt ekki með breyttum aðstæðum - rétti tíminn kemur þegar þú ákveður að hann sé kominn.

Kærleikskveðja

Anna Lóa