Ást er........

Hvað er sönn ást? Er hún eltingaleikurinn, dramað og spennan sem okkur er uppálagt að leitast eftir. Er hún kannski langi kossinn í lok bíómyndarinnar eða einfarinn sem þú náðir í fyrir rest, sá sem enginn skildi nema þú?

Eða er ástin kannski hversdagleikinn, óreiðan og þetta óvænta. Tvær heilbrigðar en samt ófullkomnar manneskjur sem skuldbinda sig í að deila lífinu saman – lífi sem inniheldur bæði gleði og sorgir, já býður stundum upp á stuð og stríð sama daginn.  
 
Þegar ástin er erfið erum við að læra – þegar hún er auðveld eigum við að njóta.  Ástin krefst þess að við treystum - já að við treystum öðrum fyrir okkur nákvæmlega eins og við erum. Þegar við finnum að við eigum erfitt með að treysta öðrum þá ættum við að hafa kjark til að segja það. Þegar við eigum erfitt með að treysta er það reynslan okkar og kvíðinn að tala. Við erum lífið okkar, gömlu samböndin, áföllin og reynslan.
 
Hvaða fólk er það sem þú treystir í lífinu? Jú það er fólkið sem þú hefur treyst fyrir þér. Alveg eins með ástina.  Ástin þarfnast tíma – þurfum að gefa okkur tækifæri til að læra og það getur tekið mörg ár að ná utan um ástina. Eigum að stefna að því að þroskast og læra en ekki að reyna við einhverja fullkomnun.
 
Þegar við opnum hjarta okkar eru við líka að rífa plástur af gömlum sárum og bregðumst við eftir því. Ef þú aftur á móti ert með manneskju sem þú upplifir þig nógu örugga með til að treysta fyrir þér og gömlu sárunum er að eiga sér stað dýpri tengsl á sama tíma og þið eruð að þroskast og læra. Langar okkur að fara í þessa vinnu - NEI. En þurfum við þess – já ef við ætlum ekki að endurtaka sömu hlutina aftur. Við hlaupum yfirleitt í burtu þegar það koma upp vísbendingar um að við þurfum að gera eitthvað og við hlaupum þar til við treystum okkur til að opna fyrir sanna ást – sem þýðir að við rífum plásturinn af og skoðum sárið með einhverjum sem við treystum. Gæti verið fagaðili – gæti verið partnerinn þinn. 
 
Sönn ást endurspeglast í því hvar þú ert í lífinu. Ef þér leiðist í lífinu og finnst allir frekar glataðir þá mun þér leiðast aftur með kærasta/kærustu eftir smá tíma. Þó að okkur sé oft talin trú um að sönn ást sé eins og einhver ástar-elixír sem maður drekkur og losar okkur við óþægindi, sársauka og einmanaleika þá er það ekki þannig. Við vitum vel að maður getur verið mjög einmana í sambandi og þá aðallega vegna þess að tengslin eru ekki nógu djúp og maður treystir ekki hinum aðilanum fyrir sér.
 
Stundum elskum við hinn aðilann meira en okkur sjálf og þá hallar oft á. Við erum vel-virk í heilbrigðum samböndum – ekki meðvirk. Við treystum á hvort annað en ætlumst ekki til að hinn aðilinn bjargi okkur úr eigin sársauka. Sá meðvirki gerir sig ábyrgan fyrir tilfinningum annarra.
 
Sönn ást er öruggt skjól þó það geti stundum blásið hressilega. Sönn ást þolir sprungur og það er oft við lagfæringarnar á þessum sprungum þar sem heilbrigð sambönd verða sterkari.
 
Eitt er víst, við munum klúðra hlutunum oft og iðulega með þeim sem við elskum. Við munum líklega særa þá, auka á skömm þeirra og vera fjarverandi þegar nærveru okkar er óskað. Þetta þýðir að við erum mannleg. Þegar sönn ást er til staðar erum við til í umbætur, aftur og aftur. Við erum tilbúin að læra þannig að við særum hvort annað sjaldnar og verðum elskulegri með tímanum.
 
Kærleikskveðja
 Anna Lóa Ólafsdóttir
(Þakka Sheryl Paul fyrir pistilinn Real love is available love).
 Mynd: Shutterstock.com