Áskorun janúarmánaðar: Fylla á tankinn!

Gleðilegt ár öllsömul.

Ég er spennt að takast á við árið 2014 og langar að byrja á því að segja ykkur að í byrjun hvers mánaðar mun ég setja inn áskorun hér inn á Hamingjuhornið. Þegar ég byrjaði með Hornið mitt þá var það eftir að hafa kynnt mér bók og vefsíðu Gretchen Rubin, sem er bandarísk og gaf út bókina The Happiness Project. Mér finnst þessi bók frábær en þar fer Gretchen yfir það hvernig hún bætti líf sitt á einu ári með því að taka fyrir einhvern ákveðinn þátt í hverjum mánuði. En fegurðin við þetta verkefni var að Gretchen var frekar hamingjusöm kona en fann að það voru sömu hlutirnir sem voru alltaf að angra hana í lífinu og hún fann að hún vildi svo gjarnan breyta. Hún vildi gera gott líf betra.

Ég er að hugsa um að fylgja Gretchen í janúarmánuði en verkefnið sem hún valdi fyrir þennan fyrsta mánuð ársins er að auka orkuna. Ég á það til að detta í kæruleysi og gleyma mér, hvort sem kemur að mataræði, hreyfingu eða svefni á sama tíma og ég veit að þetta eru grundvallar atriði þegar kemur að andlegri og líkamlegri vellíðan. Ég er með svokallaðan ,,latan“ skjaldkirtil og þarf þar af leiðandi að vanda mig í mataræði ef ég ætla að halda mér góðri, en dett aftur og aftur í að taka mig taki í ákveðinn tíma en detta svo í gamla farið. Leyfi mér alveg að njóta, bæði í mat og drykk, en stundum finn ég að þetta verðu helst til mikið og afleiðingarnar eftir því.

Því er áskorunin hér í Hamingjuhorninu fyrir janúarmánuð að auka orkuna - fylla á tankinn - bæta á lífskraftinn. Ég kem til með að skoða vel hvenær ég fer að sofa - hversu oft ég mun hreyfa mig og skoða mataræðið. Veit hvað ég þarf að gera og er ekki að finna upp hjólið nú frekar en fyrri daginn. Skoða vel hvaða hugsunum ég er að hleypa inn í hausinn á mér - og átta mig á því að stundum þarf ég að láta eins og ég sé orkumeiri í stað þess að bíða eftir að ég verði það . Alveg eins og brosið eitt og sér kemur af stað vellíðunartilfinningu þá gæti ég beðið í sófanum þangað til ég finn meiri orku í stað þess að gera eitthvað sem fyllir mig orku og mér líður betur í kjölfarið.

Ég ætla líka að verðlauna mig - ég á vetrarkort í Bláa lóninu - og vitið þið hvað - ég ætla að nota það . Með þessum skrifum finn ég bara hvernig orkan er byrjuð að hlaðast upp - sendi til ykkar líka! Eruð þið með mér í orkumeiri janúarmánuð!!

Kærleikskveðja
Anna Lóa