Alltaf svo brjálað hjá minni sko!

Lífið getur verið áskorun en það hvernig við hugsum um lífið er mesta áskorunin. Sjálfstraust er svo tengt því hvernig við hugsum og það hefur svo aftur áhrif á umhverfið okkar. Sjálfstraust er trúin á okkur sjálf og hvernig við treystum okkur til að takast á við verkefni lífsins. Það sem skiptir þarna mestu máli er að líða vel með sjálfum sér og ákvörðunum sínum og átta sig á því að mistök eru í lagi.

Sjálfstraust og streita eru nátengd en þegar við erum með gott sjálfstraust þá eru meiri líkur á því að okkur takist að halda streitunni niðri. Streita er nefnilega ekki eitthvað sem gerist óhjákvæmilega – við búum hana að miklu leyti til sjálf. Aðal vopnið í baráttunni við streitu er að velja eina hugsun fram yfir aðra sem þýðir að við verðum að vera meðvituð um hvaða hugsanir það eru sem auka á streituna.

Hvernig ég hugsa um verkefnin: sé ég þau sem áskorun þar sem ég hef stjórnina og er ég tilbúin á að takast á við breytingar.  Viðhorfin skipta svo miklu máli, er glasið mitt hálf-tómt eða hálf-fullt og hverju svara ég þegar fólk spyr mig hvernig gangi í vinnunni? Er alltaf brjálað að gera! Hvernig er að koma inn á vinnustaðinn minn – víbrar allt þannig að fólk sem þangað kemur finnst það vera að trufla. Ég fór til að mynda einu sinni á hárgreiðslustofu sem var svo undirlögð af streitu að hárið á mér gormaðist allt saman (næstum því) – en mig langaði ekki þangað aftur og kómíkin er fólgin í því að ég hef pottþétt „gormað“ hárið á fullt af fólki í gegnum tíðina. Við þurfum að vera tilbúin að spyrja okkur af hverju er svona mikið að gera hjá okkur en það sem er mikilvægara - hvað ætlum við að gera í því. Við þurfum sjálf að taka við stjórn og ákveða hverju við viljum breyta en verðum líka að ákveða hvernig lífi við viljum lifa. Eru það verkefnin sem eru að búa til streituna eða hugsanir okkar og orðræðan um verkefnin. Erum við að setja samasemmerki á milli „mikið að gera = mikilvægur“.

Við getum öll ákveðið að minnka streituna í lífi okkar með því að byrja á því að ákveða að taka stjórnina og skoða hvaða hugsanir tengjast verkefnum daglegs lífs. Taka einn dag í einu og ákveða að einfalda lífið eftir bestu getu, vera til staðar hér og nú og stjórna sjálf tímanum í stað þess að láta hann stjórna okkur. Við þurfum að skoða hvernig við tölum um okkur og vinnuna okkar, hvernig líkami okkar bregst við og hugsa út fyrir okkur sjálf og ágætt að setja sig í spor annarra og velta fyrir sér; hvernig ætli það sé að koma við á vinnustaðnum mínum/heimilinu mínu.

Þurfum að huga að hugsunum sem vega að sjálfstrausti okkar og auka á streituna:

1) Að hugsa „Ég hefði átt að.......“ Þegar þú býrð til lista yfir allt sem þú hefðir átt að gera, ertu í rauninni að segja sjálfri þér að það sem þú gerir sé ekki fullnægjandi. Þú ert að minna þig á markmið sem þú hefur ekki náð. 

2) Að gera of miklar kröfur til sín. Það á að sinna öllu jafn vel, vinnu, heimili, börnum, áhugamálum, líkamsrækt. Óraunhæfar kröfur brjóta niður sjálfstraust. Þú ert stöðugt að valda sjálfri þér vonbrigðum með því að ná ekki settu marki.

 3) Að alhæfa. Hugsanir sem ganga út frá því að nota orðin alltaf, ekkert og aldrei. Þessar hugsanir gefa ekkert svigrúm, annað hvort ertu að ná árangri eða þvert á móti alls ekki.

 4) Að horfa á neikvæðar hliðar. Það er mjög niðurbrjótandi að sjá bara neikvæðu hliðarnar á hlutum eða atburðum sem eru neikvæðir eða erfiðir.  Það skiptir miklu máli að leita eftir jákvæðu hliðunum líka.

5) Að túlka neikvætt það sem gerist. Flest sem hendir er hægt að túlka bæði jákvætt og neikvætt. Hvorn kostinn velur þú?

 6) Að ýkja villur og mistök sem þú gerir. Hvernig bregst þú við þegar þér verður eitthvað á? Hugsarðu „Það er mannlegt að gera mistök“? Eða velur þú þann kostinn að velta þér upp úr mistökunum í marga daga?

 7) Að gera lítið úr jákvæðum hlutum sem gerast. Hvað gerir þú þegar þér er hrósað? Hvernig tekur þú því þegar vel gengur hjá þér? Lítur þú á það sem sjálfsagðan hlut, ferð þú í flækju eða ertu stolt(ur) af því?

 8) Að vanmeta styrkleika sína og kosti. Margir einstaklingar leiða aldrei hugann að því hvaða kostum þeir búa yfir. Ert þú ein(n) af þeim?

90:10 reglan er sú að einungis 10% af lífi okkar eru undir því komið hvað gerist en hin  90% eru viðbrögð okkar við því sem gerist. 

Hvaða leið ætlar þú að velja í lífinu? Mig langar að vera í gleðinni og ætla því að lesa þennan pistil um leið og ég finn að ég er að missaða J

Kærleikskveðja

Anna Lóa