Alltaf brjálað að gera!!

Eins og hefur komið fram í skrifum mínum undanfarið er ég að fara að takast á við nýjar áskoranir í lífi mínu og þeim fylgja bæði tilhlökkun, smá kvíði en mest spenna yfir því að fá tækifæri til að læra nýja hluti og beita mér á vettvangi sem ég hef horft á úr fjarlægð fram að þessu. En það sem mér finnst merkilegt við þessi tímamót eru viðbrögðin frá umhverfinu. Nú hef ég fengið að heyra u.þ.b 50 sinnum: jæja, NÚ verður brjálað að gera hjá minni!!

En ég sé þetta ekki þannig - ekkert frekar en fjöldinn allur af fólki sem vinnur við verkefni þar sem það upplifir tilgang og merkingu með því sem það er að fást við. Ég hef alveg verið á stað í lífinu þar sem mér fannst verkefnin mín ekki hafa nógu mikinn tilgang fyrir mig og mér fannst bara mjög oft ALLT of mikið að gera hjá mér. Þegar maður finnur að maður hefur fundið staðinn sinn í lífinu þá er maður öruggari með sig þegar nýjar áskoranir eru annars vegar og nýtur þess sem maður er að gera. Maður er tilbúin að uppgötva og kanna nýja hluti og er ekki svo upptekin af velgengni þar sem ytri verðlaun fylgja oft í kjölfarið á innri uppfyllingu.


En til þess að komast á þennan stað þurfum við að virða eigin tilfinningar og hlusta á hjarta okkar. Við þurfum að þekkja eigin gildi og taka þau fram yfir skoðanir annarra. Þegar gildin okkar eru á floti þá ert fullt af fólki þarna úti sem reynir að segja manni hvað henti best og oftar en mig langar að muna hef ég fengið að heyra að ég sé bjartsýn að ætla að ALLT þetta gangi upp hjá mér. Á tímabili fékk ég setninguna ,,elskan mín góða, held að þú áttir þig ekki á hvað þú ert að fara út í“ og ég hugsaði stundum hér einu sinni, hvernig hefur fólk farið að því að ná árangri. 

En hef komist að því að þetta er nú bara alls ekki svona svakalegt allt saman og við ættum frekar að vera sú hvatning sem fólk þarf á að halda en draga úr einstaklingum með dæsi og svartsýnistali. Ég græði bara ekkert á því að dæsa yfir því hvað það sé brjálað að gera hjá henni GUNNU - hún hljóti nú að fara yfir um bráðum, þrátt fyrir að síðast þegar ég sá hana brosti hún eins og blómið eina og lýsti upp umhverfið með orku og jákvæðni. Kannski ætti ég bara að spjalla við hana og fá að vita leyndarmálið 

En það skiptir mig máli að fá að tjá mig um þetta ALLT og tengjast fólki sem hefur einmitt náð þessu ÖLLU. Ég þarf ekki að fela það hvert mig langar, frekar að leita eftir því að finna fólk sem er tilbúið að leiðbeina mér. Ég þarf að ganga í lið með þeim sem bjóða mér áskoranir en eru ekki að efast um getu mína. 

Næst þegar einhver segir; ja hérna Lóa mín, NÚ hlýtur að vera aldeilis brjálað að gera hjá þér HA - ætla ég að líta djúpt í augu viðkomandi og svara ofur rólega - nei veistu, bara alls ekki. Aftur á móti leitast ég eftir að lifa lífinu lifandi og finna fyrir þeim eldmóði sem er mér svo mikilvægur þegar ég tekst á við verkefni og áskoranir. Þegar það tekst er ég einmitt uppfull af orku og ákafa fyrir lífinu. En hvað er að frétta af þér?

Kærleikskveðja 

Anna Lóa

Mynd: Shutterstock.com