Að hafa vitni að lífi okkar - í golfi!

Var í yndislegu golfmóti í kvöld. Spilaði reyndar ekki sjálf í þetta skiptið en sá um skipulag og annað sem fylgir. Fátt betra en að vera í góðum hóp og í þessu líka dásemdar veðri. Það var slegið, hlegið, spjallað, borðað og notið. Ég er ekkert sérlega góð í golfi þrátt fyrir að hafa verið viðloðandi íþróttina í nokkur ár. Ég stundaði það meira að segja á tímabili að fara bara ein á æfingavöllinn þar sem ég gæti gert mig að ,,fífli“ í friði. Ég gerði það vegna þess að ég vildi ekki deila byrjunar mistökum mínum með öðrum - ég vildi ekki ,,deila" mér fyrr en ég væri komin í öryggið. Ég á það til að ofhugsa hlutina og setja kröfur á mig sem gera það að verkum að ég hef ekki eins gaman af lífinu. Eins og þetta að fara ekki út á völlinn með hinum fyrr en ég er orðin ,,góð“ í golfi. Sem betur fer tók ég mig taki og sleppti takinu á þessum kröfum mínum, fór á stóra völlinn og leyfði mér að gera mín mistök. Við hvað var ég svona hrædd - mistökin sem allir golfarar gera einhvern tímann á ferlinum? Flestir golfarar hafa nóg með sjálfa sig svo hugsunin um að ALLIR væru að spá í mér var stærsta villan - já stærsta sjálfhverfa villan. Það er með þetta eins og annað í lífinu – til þess að komast áfram verðum við að hafa kjark til að taka skrefin fram á við. Það þýðir ekki að við séum laus við óttann, erum jafnvel óttaslegin en höldum samt áfram því öryggið kemur ekki fyrirfram heldur með æfingunni. Það er nauðsynlegt fyrir alla að stíga út fyrir þægindahringinn og takast á við áskoranir, bæði í leik og starfi. Þannig aukum við sjálfstraustið og komumst hjá því að lenda í kyrrstöðu sem gæti þýtt að við erum allt of lengi á „æfingavellinum“ og í versta falli förum við aldrei lengra. Hef tekið þá ákvörðun að taka þessum LEIK ekki of alvarlega - frekar en öðru í lífinu. Ég ætla mér að hafa gaman af þessu - halda áfram að búa til skemmtilegar minningar og deila með öðrum. Ég ætla að halda áfram að hlæja og njóta og síðast en ekki síst að tengjast svona frábærum hóp eins og ég gerði í kvöld. Ég vel frekar að spila með öðrum og slá boltanum ofan í vatn - en spila ein og hafa engin vitni. Um leið og við höfum vitni af lífi okkar verðu það merkingabærara og því fylgir meiri lífsfylling. Lífið snýst um tengsl; við okkur sjálf - við aðra - við umheiminn. Þetta snýst um að treysta öðrum fyrir okkur eins og við erum. Kærleikskveðja til ykkar! Anna Lóa golfari