Að eldast með reisn!!

 Lífið er dýrmæt gjöf og því mikilvægt að fara vel með það. Ég er orðin fimmtíu ára – já búin að ná þeim áfanga og er stolt af því. Það skiptir máli fyrir líðan okkar með hvaða augum við lítum aldurinn. Þeir sem fagna hverju ári og líta á það sem enn eitt þroskaskref í átt að betra lífi upplifa aðra hluti en manneskja sem sér aldurinn sem óvin sem tekur í burtu það sem dýrmætt er. Sem manneskjur erum við í sífelldri sköpun og tökumst óhjákvæmilega á við hvert þroskaverkefnið á fætur öðru og hvernig okkur tekst til hefur áhrif á líkamlega og andlega líðan okkar. Það er mikilvægt fyrir andlega líðan að láta sér líða vel með sjálfum sér, kostum og göllum. Það hvernig við hugsum um okkur sjálf hefur áhrif á samskipti okkar við aðra. Ef tilfinningar okkar í eigin garð mótast af ósanngjarnri gagnrýni, sjálfsásökunum og mikilli kröfuhörku um eigin getu geta samskipti okkar við aðra litast af því lífsviðhorfi. Hins vegar er hægt að áætla að jákvæðar tilfinningar í eigin garð ali af sér umburðarlyndi og ánægjuleg samskipti við aðra. Sjálfsvirðingin tengist því hvernig okkur hefur gengið að vinna úr þeim viðfangsefnum sem lífið hefur fært okkur og þá er mikilvægt að maður upplifi að leiðin liggi uppá við en ekki öfugt. Með tímanum ættum við að sækjast eftir því að dýpka skilninginn á okkur sjálfum og öðrum og stuðla þannig að heilsteyptara sjálfi. Til að upplifa vellíðan og gott líf þar sem sjálfsvirðingin er í lagi þarf maður að velja líf sem ýtir undir það. Lífið er heildrænt ferli frá vöggu til grafar og ekki hægt að slíta eitt tímabil úr samhengi við annað. Sjálfsvirðing er órjúfanlegur hluti af þeirri heild og má segja að þegar aldurinn færist yfir kemur í ljós hvernig okkur hafi tekist til í þessari heildrænu vinnu. Það er ákjósanlegast að mesta uppbyggingin fari fram þegar maður hefur heilsu og þrek til og í framhaldinu að njóta þeirra vinnu síðar á ævinni. Þeir sem ,,læra“ jafnt og þétt yfir önnina búa að því í lokin og gengur þar af leiðandi betur í lokaáfanganum. Man í sálgæslunáminu talaði einn presturinn um að fyrir fimmtugt ákveðum við sjálf hvernig lífi við lifum en eftir fimmtugt sé líf okkar litað af því hvaða ákvarðanir við tókum á fyrri hlutanum. Það skiptir máli að vanda sig í lífinu vilji maður auka möguleika á því að eldast og deyja með reisn, þar sem maður ber virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Það er ýmislegt sem er ekki í höndum okkar mannanna en annað sem við ráðum vel við. Ég vil vera betri en ekki bitrari og því undir mér komið að haga málum þannig að slíkt megi takast. Breyta því sem ég get breytt en sætta mig við annað. Í mínum huga er þetta spurningin um að eldast og öðlast en ekki eldast og missa!! Ef við erum með gott sjálfstraust þá áttum við okkur á að það er barnalegt að byggja upp sjálfstraust á samanburði og að við þurfum ekki að sanna okkur fyrir öðrum. Þá áttum við okkur á að við þurfum ekki að hræðast það að eldast og að sumir eldast og þroskast á meðan aðrir eldast bara og eldast. Þá gerum við okkur grein fyrir því að heilbrigð sjálfsmynd lýsir sé umfram allt með umburðarlyndi gagnvart eigin ófullkomleika, þori fyrir að vera maður sjálfur, með kostum og göllum, og getu til að horfast í augu við raunveruleikann. Staðreyndin er að við erum hvert og eitt okkar með sínu lagi og breytumst líkamlega og andlega með aldrinum. Í stað þess að eyða dýrmætri orku í að afneita og berjast gegn hinu óumflýjanlega væri skynsamlegra að líta á þessar breytingar sem jarðtengingu og áminningu um að tíminn líður og það skiptir máli hvernig við notum hann. Vona að mér beri gæfa til að eldast áfram og öðlast! Með kærleikskveðju Anna Lóa 50 ára