Að baki sorg er alltaf sál!

Var mjög hugsi eftir að ég hlustaði á ræðu Monicu Lewinsky  á ráðstefnunni Forbes under 30 summit. Ræðan hennar hreyfði við mér og fyrir margra hluta sakir. Monica var 22ja ára þegar hún varð ástfangin af yfirmanni sínum, jú mikið rétt, sem reyndist vera forseti Bandaríkjanna. Hún var 22ja ára þegar hún var tekin af lífi í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og hefur tekist við afleiðingarnar s.l 16 ár. Á sama tíma og hún var svikin af vinum og vinnufélögum, einkalíf hennar og prívat samtöl dreifð um heimsbyggðina, útlit, persóna og andlegt ástand krufið í öreindir, var yfirmaðurinn áfram valdamesti maður veraldar sem mátti sín lítils á móti þessari vergjörnu ungu konu. En ég ætla ekki að nota þennan pistil í að varpa ljósi á sambandið þeirra á milli, frekar hvernig málin hafa þróast og hvert stefnum við. Þegar Monica fer í gegnum sitt erfiðasta tímabil vorum við hvorki með Google né Facebook, Twitter eða snjallsíma. Hvernig hafa málin þróast og á hvaða leið erum við? Ég hef stundum spurt sjálfa mig að því hvernig ég vil nota samfélagsmiðla eins og t.d. Facebook. Mér finnst þessi miðill frábær því hann má nota á uppbyggilegan hátt en svo getur hann líka rifið niður á þann hátt að manneskja, já og heilu fjölskyldurnar eru ekki þær sömu á eftir. Ég hef haldið fyrirlestra um einelti á vinnustöðum og er svo mikilvægt þegar við ræðum um að það verði að taka á einelti í skólum landsins að við skoðum hvar við erum stödd sjálf – við sem erum fyrirmyndir barnanna okkar. Þegar ég kenndi í grunnskóla sagði ég gjarnan við nemendur mína: ekki segja um neinn sem þú getur ekki sagt við neinn. Það er svo auðvelt að hafa skoðun á mönnum og málefnum þegar við erum fjarri mönnum og málefnum. Það sem mér finnst einkenna umræðuna öðru fremur er að sá eða sú sem er tekinn fyrir er gerður ábyrgur fyrir neikvæðri umræðu eða niðurrifi sem fer af stað (hér er ég ekki að tala um gagnrýni). Þá er oft kastað fram: Honum var nær!! Hún hefði ekki átt að taka þetta að sér ef hún þolir ekki svona umfjöllun! Hann átti að hugsa áður en hann gerði þetta!! Það má svo sannarlega til sanns vegar færa að við mundum öll græða á því í lífinu að hugsa allt til enda, gera aldrei neitt nema maður sér hundrað prósent viss um að það sé rétt og vera fyrsta manneskjan á jarðríki til að lifa lífinu á fullkominn hátt. En svo skiptir líka máli að maður átti sig á því að það sem aðrir segja um okkur skiptir ekki máli fyrr en við leyfum því að hafa áhrif á okkur. En eins og ég kem inn á þegar ég ræði einelti á námskeiðinu mínu þá er það nú bara þannig að þrátt fyrir að vera sterkur einstaklingur þá geta stöðugar árásir reynst sterkustu einstaklingum erfiðar viðfangs og því hæpið að skella skuldinni á ,,fórnarlambið“ með því að segja að um sé að ræða einstaklinga sem bera illa hönd fyrir höfuð sér, hlédrægir, viðkvæmir, hæglátir, varkárir o.s.frv. Mér finnst oft vöntun á að við tökum ábyrgð á því hvað við segjum og gerum í samskiptum. Mér finnst afar mikilvægt að ég sé meðvituð um að hegðun mín hefur áhrif á aðra og ég ein sem ber ábyrgð á því hvað ég segi og geri. Ég hef reynt að temja mér (tekst alls ekki alltaf) að segja ekki um neinn sem ég get ekki sagt við neinn og gefa fólki tækifæri þrátt fyrir að almannarómur sé mér ekki sammála. Með því að skoða hvað við erum að setja þarna út, hvernig umræðum við erum að taka þátt í, hvernig sögum við erum að dreifa og hvernig samfélag við erum þar með að skapa, erum við að viðurkenna að hvert og eitt okkar skiptir máli. Ég breyti engum nema mér en ég er mjög meðvituð um að ég get haft áhrif á aðra. Ég er líka mjög meðvituð um að það er ekki bara það sem ég segi sem skiptir máli – ekki síður það sem ég geri. Með því að taka ábyrgð á því hvernig samfélagi ég vil búa í mun ég skoða vandlega hverju ég er að dreifa og taka meðvitað út það sem mér finnst skemmandi eða niðurlægjandi fyrir okkur á heildina litið. Þýðir ekki að það megi ekki gagnrýna eða segja hvað má betur fara – þýðir að á bak við hverja sögu er manneskja og við heyrum oft bara hálfa söguna. Við getum notað mátt sögunnar til að hvetja, fræða, hugga og breyta til betri vegar. Ég vil það frekar en þann eyðileggingarmátt sem við getum tekið út fyrir öll mörk. Monica vill nota sýna sögu til að vekja athygli á þeirri hnignandi menningarstefnu sem við stöndum frammi fyrir í fjölmiðlum þar sem við þurfum að bylta því samhygðar-svelti sem við verðum vitni af á hverjum degi. Þetta kemur okkur öllum við!! Oscar Wild sagði: að baki sorg er alltaf sorg, en kannski væri réttar að segja, að baki sorg er alltaf sál og að hæðast að sál sem er að fara í gegnum erfiða tíma eða sársauka er skelfilegur hlutur. Ræðu Monicu er hægt að hlusta á hér: Monica Lewinsky  Kærleikskveðja Anna Lóa